141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[13:51]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru þrenns konar tölur í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. þegar menn taka launin, og þetta hefur verið tengt þeim, er talað um 3,25 sem eru samningar miðað við 1. mars um að laun munu hækka sem því nemur. Það er almennt í gegnum fjárlagafrumvarpið. Aftur á móti þar sem verið er að tala um rekstrargjöld og annað slíkt taka menn vísitöluna aftur í tímann, ég man ekki töluna nákvæmlega, hvort hún er 4,6% eins og hv. þingmaður sagði eða 5,6. Þær tvær vísitölur hafa verið notaðar. Síðan var notaður sérstakur útreikningur sem var neysluvísitalan samkvæmt reglunum og lögunum í sambandi við öryrkja og ellilífeyrisþega, sem er 3,9%. Þannig að þrjár tölur eru í gangi í fjárlagafrumvarpinu og það skýrir málið að þarna er horft til launa.