143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu.

107. mál
[19:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er einn af þeim sem eru með á þessari þingsályktunartillögu og treysti á að hún fái vandaða umfjöllun og verði samþykkt, sem allt stefnir svo sem í.

Það er búið að flytja hér afar góðar ræður þar sem farið hefur verið yfir stöðuna á þessu svæði og ég tek heils hugar undir það sem hér hefur komið fram að það eru mörg teikn á lofti sem kalla fram viðvörunarorð, það er hætta á ferðum. Veruleg fólksfækkun hefur orðið á þessu svæði og þó að þetta sé ekki eina svæðið á landinu þar sem það hefur gerst — við höfum horft upp á það sama á Vestfjörðum, á þessu svæði á Norðurlandi vestra og á norðausturhorninu — er sérstök ástæða til að fara yfir hvaða breytingar hafa valdið þessari miklu fækkun.

Það er svolítið merkilegt að skoða tölurnar sem fylgja með tillögunni. Það verður veruleg fækkun frá 1997 til 2007. Síðan kemur stopp í þetta þangað til að árið 2011 fara tölurnar aftur að síga verulega niður á við. Það sem er forvitnilegt að skoða er að á sama tíma og hér varð veruleg uppsveifla í landinu og menn töluðu um mikinn hagvöxt var þetta eitt af þeim svæðum sem urðu algjörlega út undan. Þetta svæði naut ekki neins af þeirri uppsveiflu sem var í samfélaginu á þeim tíma. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar í sýslunni þegar við skoðum stöðu landbúnaðar, svo sem í aukinni tækni og breytingum á öllum þáttum þar. Það sama gildir um sjávarútveginn. Nú síðast hefur það bitnað á þjónustunni og þar eru áfram teikn á lofti vegna þess að nú er verið að tala um að sameina heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af t.d. Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi í þeirri sameiningu og raunar Sauðárkróki líka, þannig að ég hef sjálfur beðið um að þar verði farið varlega. Þó að ég hafi komið að því og þurft að taka erfiðar ákvarðanir hvað þetta svæði varðar þá gerði ég mér strax ljóst að m.a. á Blönduósi yrði ekki gengið verulega langt í niðurskurði, einfaldlega vegna þess að þá væru menn komnir að því að leggja niður mjög merka stofnun sem þar er.

Það sem kemur líka fram og er undirliggjandi í allri þingsályktunartillögunni er sérstaða þessa svæðis. Hér er valið að fara í öflugt orkuframleiðslufyrirtæki, þ.e. Blönduvirkjun, og nær öll sú orka er flutt í burtu með verulegu orkutapi. Eins og hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir vakti athygli á í ágætri ræðu er eftir miklu að slægjast að reyna að nýta orkuna sem næst framleiðslunni svo við töpum ekki í flutningi á orku á milli svæða. Þess vegna hafa menn horft til gagnavers. Það er búið að vinna ákveðna grunnvinnu í því að skapa forsendur fyrir gagnaver. Því miður hefur orðið bakslag, við áttum von á því að hér mundu koma gagnaver og þá kæmi Blönduós sterklega inn í myndina en því miður hafa ekki risið mörg gagnaver á Íslandi og óljóst um framhaldið. En þarna var búið að skapa umhverfi sem átti að vera mjög hagstætt fyrir gagnaver þannig að það kæmi til Íslands. Það var líka búið að leggja fjármagn í að reyna að tryggja tengingar á milli Íslands og Ameríku og Evrópu, þ.e. með sæstreng til flutnings orku og nauðsynlegum nettengingum.

Við skulum vona að þessi vinna haldi áfram. Það hefur verið gripið til myndarlegra úrræða á þessu svæði, við skulum ekki gera lítið úr því, og þar eru myndarlegar stofnanir svo sem eins og innheimtumiðstöð á Blönduósi og þangað væri hægt að færa fleiri verkefni. Það hafa verið ýmsar hugmyndir uppi um það, m.a. fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna, og væri hægt að nýta sér þá öflugu þjónustu sem þar er nú þegar. Ég hvet þá stjórnarliða sem hér eru að skoða líka Vinnumálastofnun og þá sem koma að málum hennar. Það varð gríðarleg fjölgun og uppbygging í tengslum við Vinnumálastofnun á Skagaströnd og þó að maður óski þess ekki að þurfa að hafa stóra Vinnumálastofnun vegna atvinnuleysis þá verðum við að passa okkur á því að þegar samdrátturinn verður verði sá hluti ekki eingöngu skorinn niður, heldur alveg jafnt í Reykjavík og jafnvel frekar vegna þess að það er hægt að stýra því af viðkomandi ráðherra og í samráði við Vinnumálastofnun. Ég treysti á að það verði gert vegna þess að stofnanir eins og þær tvær sem ég hef nefnt skipta gríðarlega miklu máli fyrir þessi svæði.

Sama gildir um þær tillögur sem væntanlegar eru um lögregluna, hvernig þar verði byggt upp, það sem gefið verður til baka. Og ég treysti líka á að í þessum hugmyndum um sameiningar stofnana í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi verði reynt að ná samstöðu um að ganga alls ekki lengra á Blönduósi.

Þetta er varnarbarátta en þarf að breytast í sóknarbaráttu. Þessi tillaga gengur út á að reyna að sameina aðila í baráttunni fyrir byggð á þessu svæði. Það sem er forvitnilegt og kom líka í ræðu hjá hv. þm. Sigrúnu Magnúsdóttur og hefur alltaf undrað mann er að þetta svæði skuli ekki vera sterkara miðað við samgöngurnar. Það er þrátt fyrir allt í alfaraleið, það er á milli höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands, sem sagt Akureyrarsvæðisins. Og núna þegar við sjáum fram á að það geti orðið sóknarfæri í landbúnaði hljóta menn að horfa til svæðis eins og þessa.

Ég hef stundum gagnrýnt heimamenn fyrir það að þeir hafi ekki verið nógu farsælir í því að standa saman á þessu svæði, vestur- og austursýslan og sveitarfélögin á þessu svæði. Það er eitt af því sem hlýtur að koma inn í umræðuna, hvort það muni styrkja þetta svæði að menn sameini sveitarfélög enn frekar. Og auðvitað verður breyting líka við það að hitaveitan kemur inn á Skagaströnd, þar koma ný tækifæri. En á móti kemur það sem hv. þingmaður sem hér talaði á undan, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, bendir á, að nú er í rauninni að klárast það ferli sem varð þegar útgerðarfyrirtækin sameinuðust á þessu svæði eða Fisk Seafood í Skagafirði yfirtók útgerðina á Skagaströnd. Nú er verið að leggja frystitogaranum eða breyta honum, leggja honum að mér skilst, og þar er verið að fækka mörgum af þeim sem hafa m.a. stundað vinnu frá Skagaströnd, ef ég veit rétt. Það er nánast orðinn lítill hópur sem fer þarna á milli í fiskvinnslunni. Við sjáum því að þessar sterku greinar sem halda uppi íslensku samfélagi, landbúnaður og fiskvinnsla, sem hefðu átt að vera sterkar á þessu svæði hafa koðnað niður í Húnavatnssýslum.

Við skulum vona að þessi tillaga leiði til þess að menn nái áttum — við erum með Byggðastofnun þarna rétt hinum megin við Þverárfjallið, þ.e. í Skagafirði — og þetta verkefni verði unnið af fullri alvöru og menn geri allt sem hægt er til þess að varðveita og styrkja byggð í Austur-Húnavatnssýslu.