143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland vegna fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum.

39. mál
[19:09]
Horfa

Frsm. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um samstarf við Færeyjar og Grænland um samantekt um orsakir fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum. Álitið er á þskj. 347, það er 39. mál þingsins.

Utanríkismálanefnd tók málið til umfjöllunar og fékk á sinn fund formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Nefndin bað jafnframt um kostnaðarmat frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að efna til samstarfs við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um gerð samantektar yfir kannanir og rannsóknir sem lúta að orsökum þess að konum fækkar hlutfallslega meira en körlum meðal íbúa Vestur-Norðurlanda. Teknar verði saman niðurstöður slíkra rannsókna og kannana en einnig lagðar fram tillögur og stefnumörkun sem miða að því að snúa þessari þróun við.

Við umfjöllun málsins kom fram að um útgjaldalitla tillögu væri að ræða þar sem ætlunin væri að safna saman og gera yfirlit yfir gögn sem þegar liggja fyrir. Í kostnaðarmati mennta- og menningarmálaráðuneytis til nefndarinnar kemur fram að verði útfærslan á þá lund sem Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hefur gert ráð fyrir megi búast við óverulegum kostnaði, en verði verkið falið sérfræðingum megi gera ráð fyrir allt að 5 millj. kr. kostnaði. Nefndin telur að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni geta beitt sér fyrir því að framkvæmd tillögunnar verði með ráðdeild og hagsýni að leiðarljósi, eins og tillöguhöfundar gera ráð fyrir, og að kostnaður verði óverulegur.

Tillagan byggist á ályktun nr. 3/2013, sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 20. ágúst 2013 í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi, en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita þann 10. desember 2013 hv. þingmenn Birgir Ármannsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, Árni Þór Sigurðsson, Frosti Sigurjónsson, Sigurður Páll Jónsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Ég tel óþarfa að gera frekari grein fyrir þessu nefndaráliti.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.