144. löggjafarþing — 49. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[00:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar í lok þessarar umræðu að velta fyrir mér stöðu stjórnarflokkanna og tengslum þeirra við verkalýðshreyfinguna. Hér á árum áður talaði Sjálfstæðisflokkurinn um stétt með stétt og átti öfluga verkalýðsleiðtoga og þekkti hjartsláttinn i verkalýðshreyfingunni að mörgu leyti og var ekki alveg svona úti á túni eins og manni virðist núverandi forusta Sjálfstæðisflokksins vera. Og sama á við um Framsóknarflokkinn, hann átti sína fulltrúa í verkalýðshreyfingunni sem uppfræddu flokkana um að þeir þyrftu að virða þau réttindi sem hefðu áunnist og héldu þeim svolítið jarðtengdum við það sem var að gerast milli aðila vinnumarkaðarins.

Nú virðist þetta vera allt flosnað upp og raknað upp og eins og menn séu ekki einu sinni í talsambandi þarna á milli og átti sig ekkert á hvar þeir bera niður þegar þeir ákveða að skerða einhliða kjör fólks án nokkurs samráðs við aðila vinnumarkaðarins, eins og stytting atvinnuleysisbótatímabilsins ber með sér. Með því að stytta bótatímabilið um hálft ár er ekki verið að spara beint af hálfu ríkisins því að Atvinnuleysistryggingasjóður er má segja sjálfbær sjóður þar sem aðilar vinnumarkaðarins greiða inn í hann með tryggingagjaldi að hluta. Það er auðvitað mjög sérstakt þegar menn ákveða að ganga fram af svo mikilli hörku og hugsa ekkert út í afleiðingarnar. Það eru ekki bein tengsl milli þessa hóps sem er á atvinnuleysisbótum eftir tvö og hálft ár og stendur frammi fyrir því að detta út af bótum um áramót og því að dregið hafi úr atvinnuleysi í landinu. Þessi 1.300 manna hópur er í jafn slæmri aðstöðu þó að atvinnuleysið í heild hafi minnkað á undanförnum missirum og árum, sem betur fer, og það gleðjast auðvitað allir yfir því. En það stafar líka út af því að hér hafa verið öflugar vinnumarkaðsaðgerðir og að efnahagslífið hefur þróast í þá átt að atvinnulífið er að vaxa og dafna. Það er ekki eins og efnahagurinn hafi batnað bara frá því að kosningar voru á síðasta ári. Þetta er auðvitað vegna aðgerða sem byrjað var á strax eftir hrun og fóru að bera ávöxt strax árið 2010 þegar hagvöxtur fór að stíga, atvinnuleysið að minnka, verðbólga að hjaðna eins og við þekkjum en veitir ekki af að minna á.

Mér fannst ágætt að heyra áðan minnst á börnin og hvernig fátækt bitnar á börnum. Menn tala oft um atvinnuleysistölur og stór hluti þessa hóps sem fellur út af atvinnuleysisbótum um næstu áramót, ef þetta gengur fram, eru foreldrar, og hvað með börn þessa fólks? Hvað bíður þeirra? Óvissa, vonleysi og engin tekjutrygging fyrir það foreldri sem er atvinnulaust. Þetta eru ekki bara excel-skjöl og tölur á blaði, þarna á bak við er fólk og börn sem menn verða að hafa manndóm í sér til þess að horfa á. Hvernig eiga menn að bregðast við þessum afleiðingum? Það er grafalvarlegt hvernig er verið að grafa undan því velferðarsamfélagi sem hefur byggst upp í gegnum árin með þátttöku verkalýðshreyfingar í landinu. Ríkisstjórnin sem hreykir (Forseti hringir.) sér og setur sig á háan hest ætlar að slá þetta núna út af borðinu án nokkurs samráðs við aðila vinnumarkaðarins og það er skammarlegt.