145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Síðasta sólarhringinn höfum við upplifað mikið óveður á landinu. Þegar það versta er yfirstaðið er mikilvægt að þakka fyrir að ekki hafi farið verr, að við höfum sloppið við manntjón og að eignatjón skyldi þó ekki hafa verið meira. Það er mikilvægt að þakka það hvað við erum þrátt fyrir allt vel undirbúin fyrir slíkt sem samfélag og það er sérstök ástæða að þakka viðbragðsaðilum og þeim hundruðum sjálfboðaliða björgunarsveitanna sem lögðu mikið á sig til að bjarga málum.

Það er kannski sjálfsagt að við sem búum hér á hjara veraldar séum ýmsu vön þegar kemur að veðri og séum þokkalega undir það búin. En það er tilefni til að hugsa til þess að tíðari og öfgakenndari óveður eru einmitt hluti þeirra hamfara sem loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér. Og ekki er öll heimsbyggðin undirbúin á sama hátt og við sem búum hérna norður í Íshafi.

Það er ástæða til að hugsa til þess starfs sem nú fer fram á loftslagsráðstefnunni í París og leggja allt á vogarskálarnar sem við Íslendingar getum lagt til að afstýra þeim hörmungum sem loftslagsbreytingum fylgja. Veðrið skiptir máli, eins og við fundum í gær og í nótt, veðrið og heilbrigði hafsins sem við treystum á hefur svo mikil áhrif á veðrið, staða lofthjúpsins sem við lifum og hrærumst í er ekki bara smámál heldur algert aðalatriði. Jörðin er bara ein kúla. Við búum öll á henni. Það sem gerist hér hefur áhrif annars staðar og öfugt. Við berum öll ábyrgð á að framtíðin geti orðið björt.


Efnisorð er vísa í ræðuna