145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er þannig með vaxtabætur og reyndar barnabætur að þær eru í fjárlögum hvers árs áætluð stærð. Það sem við erum að gera hér er að við erum að færa niðurstöðu ársins til samræmis við raunútreikninga. Nú vitum við hver kjaraþróunin var á árinu og eins og hér hefur komið fram þá er eignastaðan sem betur fer að batna, sem betur fer eru launahækkanir meiri en við gerum ráð fyrir. Það verður til þess að að óbreyttum reglum þurfum við ekki að nota alla þá fjárhæð sem við áætluðum að við þyrftum að nota. (Forseti hringir.) Og þegar við hækkuðum barnabætur um 13% á sínum tíma þá bættum við réttindi þeirra sem minnst höfðu milli handanna.

Þeir sem kvarta undan því að þessu sé ekki skilað að fullu í samræmi við áætlun eru í raun og veru að biðja um að mismunurinn sé notaður til þeirra sem hafa það best (Gripið fram í: Nei. ) og hafa ýmist fengið barnabætur eða vaxtabætur. (Gripið fram í.) Vegna þess að það eru þeir sem hafa haft það best (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta?) í hópi þeirra sem við áætluðum að fengju þessa heildarfjárhæð (Forseti hringir.) eru komnir upp fyrir það … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það er óskaplega erfitt að hlusta á þetta, ég efast ekki um það, en þeir eru komnir upp fyrir það að uppfylla skilyrðin. (Gripið fram í.) Þess vegna þurfum við að nota minna en við áætluðum. Þannig er þetta. Þetta hefur skilað sér að fullu til þeirra sem hafa minnst á milli handanna.