146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka félaga mínum úr Norðausturkjördæmi, hv. þm. Loga Má Einarssyni, fyrir þessa fyrirspurn. Nú er það svo að ég starfaði sem skólameistari í 13 ár í fullu starfi og þekki þar af leiðandi þennan akur mætavel. Ég tók á sínum tíma, árið 2012, við fyrirmælum frá þáverandi hæstv. menntamálaráðherra um forgangsröðun inn í skólana. Ég spyr mig: Hvaða tilgangi þjónaði sú forgangsröðun sem var sett með reglugerð sem hæstv. menntamálaráðherra ritaði undir eigin hendi á þeim tíma? Það sem verið er að gera núna er eingöngu að framfylgja þessari reglugerð. Það eru engar reglur (Gripið fram í.) og skólarnir bera ábyrgð á innritun, hver og einn skóli. Ég veit ekki til þess að það hafi í stórum stíl verið óheimilað að nemendur eldri en 25 ára færu inn í framhaldsskólana.

Hins vegar er það þannig, og það er bara mjög eðlilegt, að þegar er verið að raða inn í framhaldsskólana — og þetta snýst ekki um peninga, þetta snýst líka um pláss í skólunum. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp hvernig forgangsröðunin var sem þáverandi hæstv. menntamálaráðherra kom með árið 2012. Þar kemur fram að þeir sem eru í fyrsta forgangi eru nemendur sem flytjast milli anna eða skólaára í núverandi skóla að meðtöldum nemendum yngri en 18 ára með ófullnægjandi árangur sem hafa haldið skólareglur að öðru leyti. Síðan koma nemendur á starfsbrautum fatlaðra. Í þriðja lagi koma nemendur sem útskrifast úr grunnskóla á næstliðnu (Forseti hringir.) vori fyrir upphaf. Ég get haldið svona áfram.

Það er hægt að lesa á vef menntamálaráðuneytisins hver forgangsröðunin er. (Forseti hringir.) Hún er við lýði, það er alveg rétt. (Forseti hringir.) Ég geri ráð fyrir því (Forseti hringir.) að hæstv. menntamálaráðherra á þeim tíma (Forseti hringir.) hafi haft markmið með þeirri forgangsröðun. [Háreysti í þingsal.]