146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég set einmitt spurningarmerki við af hverju fjármálastefnan er lögð fram núna. Það þurfti ekki að leggja hana fram. Hún gæti verið frá 2018–2023, eða 2022 ef það er til fimm ára héðan í frá. Það þyrfti ekki að leggja fjármálastefnuna fram fyrr en með næstu fjárlögum þar sem það er gildandi fjármálastefna fyrir árið í ár.

Ég spyr að því þá aðallega vegna þess að þessi fjármálastefna er götótt. Það vantar í hana eins og ég sagði áðan þróun langtímaskuldbindinga, eigna og fleiri atriða. Það hljómar undarlega, þegar það vantar eitthvað sem samkvæmt lögum á að gera, að þá sé verið að flýta sér til verka. Fjármálaráð benti á hið sama varðandi sín störf, að hafa tvær vikur til umsagnar eru bara ekki nægilega góð vinnubrögð.

Þetta er eiginlega hluti af stærri umræðu sem þingið þarf að eiga varðandi meðferð lagafrumvarpa. Við vorum að glíma við frumvarp um leiðréttingu á lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar hér áður sem var einmitt afleiðing af því sama, flýtimeðferð þingmáls. Þetta er eitthvað sem við verðum að huga betur að og bera meiri ábyrgð. Ég sýni núverandi ríkisstjórn vissa vorkunn að hafa þennan knappa tíma því að það voru kosningar í október og margt undarlegra en í venjulegu árferði. En ítreka þó að samkvæmt lögum hefði ekki þurft að leggja fram stefnuna núna. Ég velti fyrir mér hvort það hefði verið eðlilegt að bíða aðeins með það.