146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að byrja á að lýsa öfund minni yfir því að hæstv. fjármálaráðherra komi í andsvar við 4. minni hluta. Mér fannst ég greina í orðum hv. þingmanns að markmiðið ætti að vera að selja bankana. Ég vildi vera viss um að ég skildi þingmann rétt. Eftir þinglega meðferð og umræður og gagnsætt söluferli fannst mér liggja í orðum þingmanns að það ætti að gera innan tímaramma þessarar stefnu, þótt það komi kannski annað fram í andsvörum.

Ég velti fyrir mér hvort ekki væri mjög þensluhvetjandi á þessu uppsveiflutímabili að fara í sölu á bönkunum. Væri ekki eðlilegra að eiga það nokkurn veginn í bankanum, að geta selt ef til samdráttar kemur?

Svo um samkomulag sveitarfélaganna. Eftir að hafa lesið það skjal hljómar það í rauninni eins og skilaboðin sem við fengum áður, að ríki og sveitarfélög hafi verið sammála um að vera ósammála nema hvað nú er það undirritað. Það er tvennt í þessum samningi sem mér sýndist vera eitthvert fast, haldbært markmið. Það var annars vegar skuldastaða sveitarfélaganna í lok fjármálastefnunnar og hins vegar að þau færu eftir hinum svokallaða GFS-staðli, að það sé það eina haldbæra. Allt annað var á þeim nótum að „halda áfram viðræðum“ eða því um líkt. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður skilji þennan samning eins.