146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Við lásum það í blöðunum í morgun að eitthvað vantaði upp á það að öll mál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar væru farin að skila sér til þingsins, það væri ekki nema rétt um þriðjungur kominn í hús þó að frestur til að skila málum inn renni út nú í vikulok. Í þessum fréttum var rætt við verkstjóra ríkisstjórnarinnar og hann spurður hvað honum þætti um þetta. Honum þótti þetta nú ekki mikið tiltökumál, þetta færi að seytla inn, en það sem mestu máli skipti væri að stærsta málið væri komið. Það er málið sem við ræðum hér og nú.

Fimm ára áætlun um það hvernig opinberum fjármunum ríkis og sveitarfélaga er ráðstafað, stóru línurnar í samneyslunni, er risastórt mál. Þess vegna er ágætt að staldra við það að sami hæstv. verkstjóri ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra, hefur ekki kvatt sér hljóðs í þessu máli frekar en flestir þingmenn stjórnarflokkanna. Afstaða þeirra til þessarar stefnu er þar með óljós í raun og alla vega ekki tekin fram hér í sal. Verra þykir mér að þingleg meðferð málsins er ekki meiri en svo að því er bara straujað hér í gegn án þess að mikið sé gert með athugasemdir. Það sem er stærsta málið finnst mér nefnilega orðið eitt hið óþægilegasta.

Það er kannski orðið svo áliðið dags að mig langar, virðulegur forseti, að fara aðeins á trúnó og viðurkenna það fyrir forseta að ég lenti oft í því þegar ég var í námi að renna á rassinn með verkefni, byrjaði of seint á ritgerðum, undirbjó mig ekki nógu vel fyrir tíma, skilaði nú yfirleitt verkefnum, en þau voru ekki alltaf eins og ég hefði best á kosið. Sú tilfinning finnst mér gegnumgangandi í þeim verkefnum sem eru unnin hér þessa dagana. Þetta mál er skýrt dæmi um það, fjármálastefna sem kemur inn eftir örstutta vinnslu í ráðuneyti, fær hraðferð í gegnum þingið og á svo að samþykkja á harðahlaupum áður en við tökum til við næsta skref sem er fjármálaáætlunin. Hana á að klára á harðahlaupum líka. Þetta er sama tilfinning og ég fékk fyrir fjárlögum fyrir jól þar sem aðkoma þingsins var allt of lítil. Þetta var ráðuneytisfjárlagafrumvarp sem þingið lét sig hafa að samþykkja nánast óbreytt og þeir þingmenn sem studdu það verklag kusu þess vegna að framselja í reynd hluta fjárveitingavaldsins upp á Arnarhól, eitthvað sem er samkvæmt stjórnarskrá hlutverk okkar að gæta.

Bara svo það sé sagt, herra forseti, þá tek ég, eins og við öll sem höfum tjáð okkur í þessu máli, undir markmið laganna um að styrk og ábyrg stjórn opinberra fjármála skipti máli. Þó það nú væri. En að í því felist óhagganleg stefna þar sem ráðherrar ráða því hvernig fjárveitingum er háttað, þar sem við eigum með þessari fjármálastefnu að samþykkja áframhaldandi sveltistefnu í opinberum fjárveitingum, óraunhæfa þar að auki ef miðað er við umsagnir um málið, til fimm ára sem við stimplum síðan aftur og aftur, fyrst með ríkisfjármálaáætlun á vordögum og síðan í fjárlögum hvers árs sem miðað við uppleggið frá ráðuneytinu á bara að vera málamyndaafgreiðsla — ég held að við megum alveg staldra við það.

Það eru ýmis atriði sem má svo sem staldra við í þessu máli aðallega varðandi það hversu galin tímalínan hefur verið síðustu vikur. Þar er að sumu leyti hægt að virða ráðherrum það til vorkunnar að lögin um opinber fjármál sníða þeim ansi þröngan stakk. Það liggur við að maður noti hugtakið frá fjármálaráði og segi að hæstv. ráðherrar séu í spennitreyju tímalínu laga um opinber fjármál þar sem í 4. gr. segir að ríkisstjórn skuli móta stefnu og leggja fram svo fljótt sem auðið er, en hún hafi þó alveg tíma fram að framlagningu fjárlagafrumvarps. Í venjulegu kosningaárferði þýðir það að frá því ríkisstjórn er mynduð í kringum maí þá hefur hún fram til september til að ljúka þessu verki sem nú, vegna þeirra óvenjulegu aðstæðna sem við bjuggum við í haust, að kjósa í október og að ekki var mynduð ríkisstjórn fyrr en undir lok janúar, er sniðinn þrengri stakkur, vegna þess að þessi sami tímarammi segir að fyrir 1. maí hvert ár skuli leggja fram tillögu um fjármálaáætlun sem byggi á stefnunni sem samþykkja ber. Stakkurinn er ansi þröngt sniðinn, en þetta eru lög sem voru samin á þessu Alþingi, þetta eru lög sem má breyta á Alþingi ef í ljós kemur að þau standast ekki raunveruleikann.

Ég vil ganga svo langt, virðulegur forseti, að segja að það sé eiginlega óraunhæft að ætlast til þess að ríkisstjórn og þing klári fjármálastefnu til fimm ára á þeim tímaramma sem er gefinn frá myndun ríkisstjórnar og fram til 1. apríl. Ég held að allt í kringum þetta mál sýni að það er einfaldlega of skammur tími. Það hefði kannski verið réttara að menn áttuðu sig á því í Stjórnarráðinu og hefðu sem fyrsta skref komið hingað til þings og farið einfaldlega fram á viðbótarfrest eins og ég gerði oft upp í háskóla, af því að þeir væru runnir á rassinn með verkið. Ég held að þetta sé ekki bara mitt persónulega mat, þetta er staðreynd.

Tökum síðan nokkur dæmi um þessa gölnu tímalínu. Fjármálaráð hefur tvær vikur til að skila áliti sínu um stefnuna, tvær vikur til að rýna stefnu um það hvernig eigi að útdeila opinberum fjármunum næstu fimm árin. Það vill fjármálaráði til happs að þetta er stefna en ekki spá þannig að það sleppur við að meta hversu raunhæft það er að hagvaxtarskeiðið sem við erum búin að vera í í níu ár samfleytt haldi næstu árin og verði þar með sögulegt í alla vega íslensku samhengi ef ekki einhverju víðara samhengi sem lengsta hagvaxtarskeið sögunnar.

Á þeim skamma tíma sem fjármálaráði var úthlutað til að rýna stefnudrögin skilaði það góðu verki. Skýrsla ráðsins er öðrum þræði áfellisdómur yfir skjalinu sem kom til þingsins vegna þess skamma tímaramma sem gefinn var. Ótal sinnum er bent á að það væri æskilegt að þessi og hin greiningin fylgdi og nánari útlistun á hinum og þessum forsendum fjármálastefnunnar. Undir það virðast flestir taka. En við ætlum að láta skeika að sköpuðu. Hér á bara að keyra þetta í gegn þótt allar þessar grunnupplýsingar vanti. Stjórnvöld geta lent í spennitreyju stefnunnar, segir í umsögn fjármálaráðs, ef atburðarásin reynist önnur en spár gera ráð fyrir. Fjármálaráðið hefur ekki umboð eða burði til að leggja mat á það hvort þessar spár séu raunhæfar, fyrir utan náttúrlega að raunsæi er ekki eitt af grunngildum í lögum um opinber fjármál þó mögulega mætti það vera það.

Þá komum við að öðrum skrýtna tímafrestinum í þessu máli sem er að sú þingnefnd sem maður hefði haldið að væri einna best til þess fallin að meta það hversu raunsæjar spár fjármálastefnunnar væru, efnahags- og viðskiptanefnd, er gefinn dagur til að rýna þjóðhagsforsendur stefnunnar. Dagur. Nefndin fórnaði eðlilega höndum og sagði: Við getum þetta ekki. Hún sagði fjárlaganefnd að þau myndu kannski líta á ríkisfjármálaáætlunina þegar hún kæmi ef gæfist nægur tími til að rýna hana þá.

Allan tímann sem við höfum verið að vinna þetta mál, allan tímann sem við höfum verið að vinna að innleiðingu laga um opinber fjármál, hvort sem er á þingi eða í ráðuneytinu, hafa allir verið í standandi vandræðum vegna þess að okkur er gert að byrja að hlaupa áður en við erum búin að læra að ganga. Þetta er flókin og mikil innleiðing á verklagi sem kallar á sérfræðiþekkingu á öllum stigum. Sú sérfræðiþekking hefur verið efld í ráðuneytunum. Það skilaði þó ekki meiru í fjárlagavinnunni en svo að ráðuneytin voru í standandi vandræðum með að koma breytingartillögum við fjárlagafrumvarp inn í tölvukerfi sitt, sem maður myndi halda að væri með jafnvel einfaldari verkefnum í opinberum fjármálum þannig að ekki vill maður hugsa til þess hvernig hin flóknari mál eru stödd í ráðuneytunum sem fengu þó fjármuni til að efla sérfræðiþekkingu. Eitthvað sem þingið hefur ekki. Þingið er af veikum mætti að rýna ríkisfjármálastefnu til fimm ára með lágmarksmannskap, nei, ekki einu sinni það, með minna en lágmarksmannskap. Með þeim hætti eigum við að geta sett stefnuna langt fram í tímann. Við eigum að geta bundið hendur okkar út þetta kjörtímabil varðandi það hvernig megi útdeila opinberu fé.

Svo er annað dæmi sem mér finnst nokkuð lýsandi um það hversu aðþrengt verklagið hefur orðið, sem er að fólkið í fjárlaganefnd sem afgreiddi málið út og skrifaði sín nefndarálit gerði það áður en lá fyrir samkomulag við sveitarfélögin sem er hin hliðin á fjármálastefnunni. Fjármálastefnan tekur til útgjalda og tekna ríkisins og sveitarfélaga, beggja hliða hins opinbera. Þinginu liggur svo rosalega á að það rúllar málinu áfram án þess að samkomulag liggi fyrir við sveitarfélög, sömu sveitarfélög og bentu á í meðförum þingsins að þetta væru óraunhæfar væntingar um afkomu sveitarfélaganna, að þær tölur sem gert væri ráð fyrir stæðust ekki áætlanir sveitarfélaganna sjálfra. Nei, við lokum bara augum fyrir því, rúllum málinu áfram með nefndarálitum sem eru skrifuð áður en allar upplýsingar liggja fyrir. Það er svo sem lítið mál því við erum vön því að það vanti alls konar greiningar og upplýsingar inn í þetta ferli, við erum vön því að vera í blindflugi í þessu máli, okkur munar ekkert um að halda því áfram og slökkva á tækjunum þannig að við séum bara í algjöru blindflugi.

Hvað tekur svo við? Verði þessi fjármálastefna samþykkt á næstu dögum, sem þarf að gera til þess að þingið geti á grundvelli fjármálastefnunnar farið að vinna með fjármálaáætlun sem væntanleg er á föstudag, tekur við þingleg meðferð fjármálaáætlunar. Þar erum við aldeilis búin að fá metnaðarfullt plan um það að renna á rassinn enn einu sinni. Það er búið að leggja upp verklag sem okkur hefur verið sýnt í drögum þar sem er gert ráð fyrir því að næsta vika, vikan fyrri páskahlé, verði nýtt í að mæla fyrir málinu, vísa því til fjárlaganefndar og hún vísi því síðan áfram til fagnefnda þingsins. Svo er komið páskahlé, í tvær vikur. Á þeim tíma fundar enginn í þessum sal. Á þeim tíma er ekki gert ráð fyrir að nefndir þingsins fundi, fagnefndirnar sem samkvæmt þessu verklagi eiga að rýna sína málaflokka í ríkisfjármálaáætlun til að skila umsögnum til fjárlaganefndar. Nei, þingnefndum er gefin síðasta vikan í apríl til að hella sér nú aldeilis ofan í forsendur ríkisfjármálaáætlunar á sínu málasviði.

Maður spyr sig: Hvenær á að taka tillit til sjónarmiða utan þessa húss, utan fjármálaráðuneytis? Hvenær á að heyra í þeim sem reka Landspítalann eða Háskóla Íslands? Hvenær á að koma sjónarmiðum þeirra inn í þessa stefnumörkun sem er þingsins? Er fagnefndum þingsins ætla að gera þetta eða verður sama viðkvæðið og var hér við afgreiðslu fjárlagafrumvarps fyrir jól að það komi okkur sama og ekkert við hvað eitthvert fólk úti í bæ segir, einhverjir ríkisforstjórar sem núverandi hæstv. forsætisráðherra bölsótaðist út í héðan úr þessum stól við afgreiðslu fjárlaga að væru bara vaðandi í fjölmiðla að tala um bága rekstrarstöðu sinna stofnana þvert ofan í það sem hentaði stjórnvöldum? Hvenær á þingið að hlusta á þessar raddir? Hvað á þingið síðan að geta leyft sér að gera? Eigum við aftur að afgreiða búrókratafjárlög og búrókrataríkisfjármálaáætlun án þess að setja pólitískt mark á þau? Eigum við bara að vera í hlutverki endurskoðenda, að bera saman rekstraráætlanir stofnana eins og þær liggja fyrir hjá ráðuneytum og þær tillögur sem koma frá fjármálaráðuneyti til þingsins? Eða eigum við kannski að fara að gera einhverja pólitík í kringum það hvernig við úthlutum fé úr þessum sal? Eigum við kannski að fara að taka fjárveitingavald okkar smávegis alvarlega?

Ég hef miklar áhyggjur af því að við rennum út á tíma í næsta skrefi alveg eins og við höfum runnið út á tíma í hverju einasta skrefi hingað til í þessu máli. Það mun ekki birtast í því endilega að við förum fram yfir fresti heldur að við vinnum verkið bara verr. Það sýnir það verk sem við erum að ræða í dag, ríkisfjármálastefnan. Það er ekki vel unnið, á engu stigi.

Svo vil ég rétt að lokum, virðulegi forseti, víkja að orðum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem í einhverri ræðu sinni í dag sagði að það væri rangnefni að tala um fjármálastefnu hægri stjórnarinnar, því að þegar þingið væri búið að samþykkja þessa stefnu þá væri þetta fjármálastefna alls þingsins.

Forseti. Ég leyfi mér að mótmæla þessu. Þessi sveltistefna hægri stjórnarinnar sem ekki þorir að taka fjármagn af þeim sem það eiga, stórútgerðum, stóreignafólki, þeim sem menga, til að forgangsraða í þágu þeirra sem ekki eiga; þetta er ekki mín stefna. Ef þessi stefna verður samþykkt hér á þingi þá er þetta stefna þeirra sem samþykkja hana. Það reikna ég með, virðulegur forseti, að verði stuðningsmenn hægri flokkanna þótt þeir láti ekki mikið til sín taka hér í umræðunni. Ég reikna með að þeir raðist allir sem einn á græna hnappinn í atkvæðagreiðslu. Þá verður þetta bara akkúrat það, virðulegur forseti, ríkisfjármálastefna hægri flokkanna sem snýst ekki um fólkið í landinu heldur tilgangslausa niðurskurðarstefnu og sveltistefnu í opinberum rekstri.