146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Hversu mikil þarf þinglega meðferðin að vera til þess að okkur geti liðið vel með málið? Ég veit ekki hvað þyrfti nákvæmlega að vera á þeim gátlista sem þingmaðurinn nefndi, en atriðin sem hann taldi upp voru alla vega góð byrjun. Sviðsmyndir skipta auðvitað miklu máli, eins og fjármálaráð bendir á. Það þyrfti líka að athuga að afkomumarkmið séu bilsett frekar en vera að vera punktur. Að það sé raunveruleikatenging, að einhverjum orðum sé vikið að því hvernig hagvöxtur kunni að þróast og, eins og t.d. Seðlabankinn hefur bent á, hvaða áhrif það myndi hafa á þjóðarbúið ef meiri háttar samdráttur yrði í ferðaþjónustu vegna óhagstæðra aðstæðna. Það eru ótal hlutir sem taka þyrfti tillit til. En kannski er það sem vantar helst hér innan húss að þingið sé nógu burðugt til að takast á við þetta verkefni, að við hefðum hér tíma og aðstæður til að vinna úr öllum þeim álitaefnum sem hér eru. Ráðuneytið mætti vissulega skila mun ítarlegri vinnu til þingsins, en þingið þarf, þegar upp er staðið, að vera sá aðili sem ber ábyrgð á vinnunni. Til þess þurfum við svo miklu betri aðstæður en við höfum í dag.