146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Maður spyr sig hvað fólk endist lengi við að veita Alþingi umsagnir ef ekki er tekið mark á þeim. Fjármálaráð lagði mikla og góða vinnu í sína umsögn á þeim stutta tíma sem það hafði. Þar er bent á ótal marga hluti sem betur mættu fara og ekkert er gert með. Þetta er ekki nógu gott. Maður dæsir bara yfir þessum vinnubrögðum. Ég tek undir með þingmanninum: Það er nógur tími fram að hausti þegar fjárlög eiga að koma fram. Ég veit ekki hvort fólk áttar sig almennt á því að megnið af apríl er þingið í hléi vegna páska og síðan er þinghlé í þrjá og hálfan mánuð yfir sumarmánuðina. Það þarf ekki að klípa mikið af þeim tíma og setja fund í þingsal til að afgreiða ýmis þjóðþrifamál og gera það á vandaðan og góðan hátt.