148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Fordæmalaus vöxtur hefur vaxtarverki. Þá þurfum við að taka alvarlega. Við höfum undanfarin ár séð 7–9% fjölgun íbúa á Suðurnesjum ár eftir ár. Uppbygging ríkisfyrirtækisins Isavia hefur hvað mest áhrif þarna og starfsemi tengd henni. Einnig er ferðaþjónustan á Suðurnesjum í vexti en ferðamenn sem koma með flugi stoppa þó ekki eins lengi þar og ætla mætti.

Á síðastliðnu ári fjölgaði beinum störfum á Keflavíkurflugvelli um 1.750. Beinum störfum. Er áætlað að þeim fjölgi um 650 á ári hverju næstu tíu árin. Svipaða sögu má segja um fjölgun íbúa og ferðamanna á Suðurlandi. Svona örum vexti fylgja miklar áskoranir á innviðina alla, hvort sem um er að ræða samgönguinnviði, heilbrigðisþjónustu, löggæslu eða aðra nærþjónustu, eins og skóla og daggæslu.

Það tekur mun meiri tíma fyrir heilbrigðisstarfsfólk og lögreglu að þjónusta erlenda gesti, sem dæmi.

Einnig vil ég benda á að bæði í Reykjanesbæ og uppsveitum Árnessýslu er hlutfall íbúa með erlent ríkisfang komið yfir 22%. Það er mikil áskorun fyrir skólasamfélög með 60 þjóðerni sem tala um 40 tungumál að veita börnum ásættanlega þjónustu. Fyrir áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar skiptir miklu máli að við getum veitt gestum okkar góða þjónustu og tekið vel á móti þeim og að samfélagið allt bjóði þá velkomna.

Það er því mikilvægt að við öxlum ábyrgð á því að byggja upp innviðina á þessum vaxtarsvæðum en ekki einblína á dreifingu ferðamanna, sem er þó líka mikilvæg. Viðhorf um að Suðurnesin þurfi ekki okkar stuðning þar sem þau séu svo nálægt flugvellinum gengur ekki upp. En það heyrist þó æ oftar innan stjórnsýslunnar.