148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

um fundarstjórn.

[11:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Vissulega hefur umræðan þroskast en innihaldið held ég síður, því miður. Það er nóg af dögum. Þetta þarf ekki að vera spurning um tímasparnað. Það er fullt af dögum í maí sem eru hvorki þingfundir né nefndafundir. Það er hægt að hafa nefndafundi á þeim dögum. Það er alveg hægt að hafa fleiri nefnda- og þingfundi í júní. Það er alveg nægur tími eftir. Við erum ekki að fara í frí þó að þingfundum og nefndafundum ljúki í júní. Við höldum áfram að vinna, að sjálfsögðu. Ég geri a.m.k. ráð fyrir. Ég geri það og ég gæti alveg eins mætt á nefndafundi þá líka eða einhverja þingfundi.

Ég geri athugasemd við þessa þéttu dagskrá af því að hún kemur niður á faglega starfinu sem hefur verið sagt að nefndavinnan sé, að hún sé faglegasta starfið hérna. Þegar svona þétt dagskrá er þar kemur það niður á undirbúningi, þeim upplýsingum og þeirri faglegu vinnu sem við skilum þar. Það er einfaldlega þannig. Það er ekki hægt að neita fyrir það.

Ég kalla eftir því að við gefum okkur þann tíma sem nefndunum er skylt að nota til að sinna (Forseti hringir.) mikilvægasta starfinu, gefi okkur ráðrúm til að skila faglega af okkur.