148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

um fundarstjórn.

[11:22]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Við erum ekki að kvarta undan vinnuálagi. Við erum heldur ekki að kvarta undan almanaksárinu. Við erum að benda á að öll ráðuneytin eiga að ljúka sinni yfirferð á 4.500 milljarða kr. áætlun á fjórum dögum í næstu viku. Ég hefði haldið að hæstv. ráðherra vildi fá vandaða umfjöllun og umræðu af hálfu þingsins um þessa stóru áætlun.

Ég tel að umræðan sé einmitt ekki nægilega þroskuð til að ljúka þessari yfirferð með þeim hætti sem stefnt er að í næstu viku. Við erum ekki að tala um að lengja þingið fram á sumarið, bara að nota þingdaga betur en hér stendur til. Það verður fróðlegt að sjá framhaldið og við skulum spyrja að leikslokum. Þegar við erum búin að afgreiða þessa fjármálaáætlun skulum við athuga hvort þingið geri einhverjar breytingar á henni. Það verður fróðlegt að sjá hvort meiri hluti fjárlaganefndar treystir sér til að gera eina breytingu á fjármálaáætlun sem er upp á 4.500 milljarða. Það verður fróðlegt að sjá eftir alla þá vinnu sem er fram undan af hálfu allra nefndanna og þingsins hvort einhver breyting verður gerð á áætluninni eða ekki. Þá getum við kannski rætt af fullri alvöru tilgang þeirrar vinnu (Forseti hringir.) sem er fram undan á vettvangi þessa vinnustaðar.