148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:35]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski fáu að svara í sjálfu sér nema því að við hæstv. ráðherra erum sammála um mikilvægi norræns samstarfs. Það er gott að finna áhugann á hinum Norðurlöndunum og viljann til að auka samstarfið enn frekar. Eins og ég segi eigum við ekki bara sameiginleg þau grunngildi sem ég nefndi áðan í ræðu minni, heldur eru hér einnig viðskiptalegir hagsmunir og loftslagsmálin eins og ég nefndi sem og varnar- og öryggismálin. Loftslagsmálin eru mjög ofarlega á blaði hjá öllum núna og rík ástæða til. Þó að við séum með ákveðna landhelgi í hafinu í kringum okkur hefur öll mengun — við höfum talað um plastmengun, súrnun, útblástur og slíkt — mikil áhrif á hagsmuni margra. Við verðum að taka höndum saman og við verðum að auka rannsóknasamstarf á þessum sviðum. Þarna undir eru svo stórir hagsmunir.

Þróunarsamvinnan er einmitt málið. Við viljum gera betur og það kostar peninga. Við þurfum þá líka að ræða hvað við erum tilbúin að gera. Við höfum gert mjög margt til að hagræða og nýta enn betur þær krónur sem fara til þróunarsamvinnu, t.d. með þeirri breytingu sem gekk í gildi 2016. Ég tel að hún hafi verið af hinu góða og held að við eigum bara að halda okkar striki þar og hafa metnað til að gera betur.