149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

persónuupplýsingar í sjúkraskrám.

[10:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á mikilvægu máli sem verið hefur til umræðu undanfarið, það er einmitt birting persónuupplýsinga í dómum. Það væri auðvitað algjört ófremdarástand ef það væri þannig að einhverjar aðgerðir væru uppi af hálfu stjórnvalda að vernda glæpamenn, eins og hv. þingmaður nefndi, að vernda persónuupplýsingar um þá, en ekki viðkvæmar upplýsingar um hinn almenna borgara. Enda er það að sjálfsögðu ekki þannig.

Ég átta mig hins vegar ekki á því hvað hv. þingmaður á við þegar hann vísar til þess að sjúkraskrár manna séu almenningi opnar í gegnum eitthvert fyrirtæki sem hann nefnir hér. Ég held að það sé nú ekki svo. Það getur bara alls ekki verið, enda væri það algerlega óforsvaranlegt. Hv. þingmaður er kannski að vísa til þess að fyrirtæki hér í bæ safnar saman uppkveðnum dómum af öllum dómstigum og gefur út dómasafn til áskrifenda sinna. Það hefur verið þannig um langt skeið.

En það er ekki svo að þetta fyrirtæki hafi frumkvæði að því að birta þessa dóma, heldur birtir dómstóllinn dómana sjálfur og þetta fyrirtæki gerir svo sem ekki annað en að taka upp þá dóma sem birtir eru á internetinu af dómstólunum, eins og verið hefur undanfarin ár. En er núna til skoðunar hvort einhver breyting eigi að verða þar á. Það er að sjálfsögðu ekki til skoðunar til að vernda sérstaklega hagsmuni hins dæmda manns, heldur hitt, að vernda viðkvæmar persónuupplýsingar m.a. aðila máls. En persónuupplýsingar dæmdra manna kunna líka að vera viðkvæmar vegna þess að dæmdir menn njóta líka mannréttinda sem standa þarf vörð um. Er þá rétt að þær séu gerðar opinberar á internetinu um aldur og ævi? Ég vek athygli á því.

Það er mjög brýnt að reglur um birtingu dóma verði samræmdar á öllum dómstigum, það er ekki þannig í dag, og að einnig verði tekið til skoðunar hvort rétt sé að birta dóma á internetinu umfram þá birtingu sem á að öðru leyti á við og er lögbundin og verður auðvitað að fara fram.