149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[11:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um afar mikilvægt mál, þ.e. að fela umboðsmanni Alþingis að hafa eftirlit með þeim stöðum þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja. Um er að ræða fangelsi á vegum ríkisins en einnig ýmiss konar stofnanir, bæði á vegum ríkisins sem og á vegum einkaaðila. Með þessu felum við umboðsmanni samkvæmt lögum um umboðsmann að annast þetta eftirlit. Taldi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd afar viðeigandi að fela því embætti þetta eftirlit, enda er það með öllu óháð embætti. Með þessu fullgildum við bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og ómannlegri meðferð.