149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

svar við fyrirspurn.

[13:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Í dag er næstsíðasti fundur þessa haustþings fyrir jólahlé. Ég hef þegar á þessu ári líklega komið fjórum sinnum upp í þennan stól til að finna að því að hluta fyrirspurnar minnar frá 20. febrúar sl. til félagsmála- og væntanlegs barnamálaráðherra hefur ekki verið svarað. Henni var svarað að hluta 24. maí. Það sem skilið var eftir var seinni hluti fyrirspurnarinnar: Hverjir keyptu 3.600 íbúðir af Íbúðalánasjóði og greiddu fyrir það 57 milljarða kr.? Hvaða einstaklingar? Hvaða fyrirtæki? Hverjir áttu þessi fyrirtæki?

Ég hef ekki orðið þess var, frú forseti, og það verður þá leiðrétt við mig ef rangt er, að frá forsetastóli hafi komið beiðni frá hæstv. ráðherra um frest til að svara þessari fyrirspurn, heldur er núna þannig ástand að hann og hans fólk eru greinilega að reyna að kreista út úr Persónuvernd þóknanlega afstöðu til þessarar fyrirspurnar. (Forseti hringir.) Persónuvernd er þegar búin að lýsa yfir hlutleysi sínu, að það megi birta þessar upplýsingar.

Frú forseti. Ég hef verið kurteis hingað til en nú krefst ég þess að þessari vanvirðu við þing og þjóð verði hætt og ég fái svar við þessum réttmætu spurningum mínum.