151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Mér hefði fundist eðlilegra að forseti sjálfur svaraði um þetta. Í mínum huga er þetta ekki alveg sambærilegt. Ég get haft mínar reglur á mínu heimili, hvað er viðhaft þar og hvað er í samræmi við viðmið og reglur. Það er mikill munur í mínum huga þegar ríkisvaldið, sem hefur þvingunarvald, ætlar að beita refsingum til þess hugsanlega að koma í veg fyrir eitthvað sem gæti verið skaðlegt, einhver tjáning. Það er margs konar tjáning skaðleg. Ég hef sjálfur alltaf barist gegn hvers kyns ofstæki og skiptir engu máli í mínum huga hvort menn kenna sig við þjóðernissósíalisma eða alþjóðahyggjusósíalisma eða sósíalisma sem er tengdur ákveðnum mönnum í fortíðinni, og ef menn gera lítið úr voðaverkum þeirra, sem margir gera í dag, þá er lausnin ekki sú að beita þvingunarvaldi ríkisins og refsingu. Ég vil beita rökum. Hvað við höfum hér í þinginu, hvað við ætlum að birta, er í mínum huga gjörólíkt mál. Ég er ekki að mæla með því almennt að við beitum miklum þrýstingi eða ritskoðunum en við getum samt ákveðið í okkar félagi, í okkar hópi, hvernig við höfum slíka hluti.

En auðvitað má alveg gagnrýna þetta. Ég held að forseti sjálfur gæti miklu betur svarað um þetta. En ég get alveg tekið undir það að við þurfum að hafa einhverjar siðlegar viðmiðanir um það hvað við birtum hér á þinginu í þessum efnum sem öllum öðrum. Ég ætla ekki að fara að beita refsingum. Ég vil beita rökum almennt og þess vegna er ég í pólitík, ég er að berjast við öfgana alla daga, meira að segja hér á þinginu.