151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil leyfa mér að minna á og rifja upp úr umræðunni 7. desember, sem við vorum bæði viðstödd og tókum þátt í, að þá benti löglærður þingmaður, hv. þm. Brynjar Níelsson, á að í stjórnarskránni er gerð sú krafa að fyrir hendi sé almannaþörf. Hann vísaði til þess að kynjahlutföll væru eitthvað sem ekki yrði heimfært undir almannaþörf heldur væri það pólitískt markmið sem fólki væri auðvitað frjálst að tefla fram og beita sér fyrir. (Forseti hringir.) Ég vil bara nefna þetta. Um leið vil ég spyrja hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að það skuli ekki vera nein kæruheimild. Skatturinn (Forseti hringir.) leggur á þennan refsiskatt og menn hafa enga möguleika á að kæra til æðra stjórnvalds. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því?