151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér í þessa umræðu þar sem ég er fyrsti flutningsmaður þess máls sem er hér til umræðu og gat því miður ekki verið hér 7. desember þegar umræðan hófst. Þetta er vissulega búin að vera athyglisverð umræða, bæði það sem ég fletti upp á netinu, hvernig hún var 7. desember á síðasta ári, og það sem af er dags. Ég verð að segja að það vekur athygli mína í umræðu um jafnrétti og hvert við erum komin í jafnréttisbaráttunni, að enn sem komið er þá eru það bara karlar, hv. þingmenn, sem hafa talað gegn þessu máli. Mér finnst það segja ákveðna sögu um það hvar við erum stödd. Ekki ætla ég að segja að við séum stödd á miðöldum en mér kom í hug áðan miðaldamenn, en svo uppgötvaði ég að það er víst hljómsveit úr Skagafirði sem bar það nafn og einhver kannast kannski við hana. (Gripið fram í.) Siglufirði, ekki var það nú verra. En svona er þetta, hér hefur hver karlkyns þingmaðurinn á fætur öðrum dregið fram mikla gagnrýni á þetta mál. Mér finnst það sérstakt, á tímum þar sem við tölum um að Ísland sé fremst meðal þjóða í jafnréttismálum og til fyrirmyndar þar, að við séum enn stödd þar að þegar fylgja á lögum sem voru samþykkt 2010 og tóku gildi 2013 — það var góður fyrirvari á og aðlögun að því að framfylgja þessum lögum — beiti menn sér hver á fætur öðrum til að tala niður það að fyrirtæki í landinu sem falla undir þessi lög fari eftir þeim.

Það eru ótal lög sem hv. Alþingi hefur sett þar sem eru viðurlög. Við getum bara rætt um lög eins og umferðarlög. Menn geta verið ósáttir við það að ekki sé leyfilegur hærri hámarkshraði en menn kyngja því að það eru viðurlög við því og sektir. Það á við um fjölda laga, sem ég skal koma betur inn á hér á eftir, sem má vísa til og sýna að það er ekki nýtt fyrirbæri undir sólinni að það sé verið að setja viðurlög við því að framfylgja ekki þessum lögum. Þau voru vissulega umdeild á sínum tíma. En við erum ekki á þeim stað í dag að við séum að tala um að setja þessi lög, heldur að það séu einhver viðurlög við því að lögin séu brotin, fyrirtæki hafi ekki uppfyllt skilyrði um kynjahlutföll í stjórnum og skipan stjórnar um að það þurfi að lágmarki að vera 40% hlutfall af hvoru kyni í stjórnum fyrirtækja, nota bene með yfir 50 manns. Við erum ekki að tala um lítil fyrirtæki. Ef það eru þrír í stjórn þá verður að lágmarki að vera einn af öðru hvoru kyni í stjórn.

Hérna hefur komið fram að þetta muni gerast bara af sjálfu sér. Þetta komi nú svona jafnt og þétt. Mér finnst þetta vera svo ótrúlegt, það er eins og öll jafnréttisbarátta í tugi ára, með konum fremstum í flokki, hafi ekki skilað þeim árangri sem við höfum náð í dag, að þetta hafi bara dottið af himni ofan. Það er auðvitað út af einhverju að við erum fremst meðal þjóða í jafnréttismálum. Það hefur kostað blóð, svita og tár í gegnum árin að berjast fyrir jafnrétti. Það að karlmenn haldi það virkilega, hv. þingmenn hér, að þetta hafi bara komið sisvona af sjálfu sér án þess að það hafi þurft að hafa fyrir því að ná því jafnrétti sem er … (Gripið fram í.) Það hefur komið fram í ræðum þingmanna. (Gripið fram í.) Það er rétt. — Ég á ekki að þurfa að eiga orðastað við þingmenn úti í sal, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Ég fer með rétt mál hér.(Forseti hringir.)

(Forseti (BN): Gefa ræðumanni frið til að halda ræðu.)

Við erum stödd þar í dag að það er enn þá 14% kynbundinn launamunur. Við eigum verk að vinna víðar. Við skulum bara horfast í augu við staðreyndir. Þarna er farið af stað, og að ég tel mjög hógvært, og lagðar til þær sektir sem um ræðir, að dagsektir geti numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. Með þeirri ákvörðun að setja á dagsektir er hægt að taka tillit til fjárhagslegs styrkleika félagsins. Og það er aðlögun. Ef frumvarpið verður samþykkt, sem ég geri ráð fyrir, taka lögin gildi 1. janúar 2022. Aftur er verið að gefa þeim skussum, sem framfylgja ekki lögum frá 2010 og tóku gildi 2013, tækifæri á að gera betur og framfylgja lögum. Ég hélt að öll við hérna inni, hv. þingmenn, horfðumst í augu við það að þegar búið er að samþykkja lög, hvort sem okkur líkar þau betur eða verr, þá ættu menn að framfylgja þeim. Þau væru ekki bara sett hér upp á grín. En það virðist vera að menn séu þar, að lög séu til að brjóta þau. Ég er ekki þar.

Við þekkjum jafnréttislögin. Ég veit ekki, þau hafa kannski ekki verið í umræðunni hjá hv. þingmönnum í þessari umræðu núna. En við vitum að það að brjóta jafnréttislög kostar líka. Í þeim eru sektir og viðurlög og við þekkjum ótal dæmi um að jafnréttislög hafi verið brotin og það hafi kostað ríkið háar sektir. Eru hv. þingmenn, sem hafa mótmælt þessu máli, mótfallnir þeim lögum og þeim viðurlögum og sektum sem hafa orðið afleiðingar þess að brjóta jafnréttislög? Það væri fróðlegt að fá viðhorf hv. þingmanna til þess.

Þetta er í þriðja skipti sem ég er fyrsti flutningsmaður þessa máls og flyt það. Dropinn holar steininn, alveg eins og í jafnréttisbaráttunni frá aldaöðli. Á tveimur síðustu þingum voru flutningsmenn málsins frá öllum flokkum á þingi. Fyrir tveimur árum var einn hv. þingmaður frá Miðflokknum. Á síðasta þingi, 150. þingi, voru tveir þingmenn frá Miðflokknum. Þegar ég lagði málið fram í haust þá ræddi ég að sjálfsögðu við þingmenn frá öllum flokkum en þá reyndist ekki vilji hjá þeim þingmönnum sem ég ræddi við hjá Miðflokknum að vera á málinu. Ég verð að viðurkenna að ég varð mjög undrandi. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, sem hér talaði á undan mér, hefur tvö síðustu þing verið á þessu máli og ég veit að hann er jafnréttissinnaður, sótti kvennaþing Sameinuðu þjóðanna fyrir einhverjum misserum. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að afstaða hans breyttist í þessu máli af því ég tel að þetta sé sanngirnismál sem eigi að sjálfsögðu að fara hérna í gegn og eigi ekki að þurfa að vera umdeilt. Mér finnst það vera með ólíkindum.

Hér hefur ýmislegt verið dregið fram í umræðunni sem mér finnst rétt að bregðast við. Það er talað um að það sé brot á stjórnarskrá, hugsanlega, ef við samþykkjum þetta frumvarp til laga, og á félagarétti. Allt þetta hefur verið skoðað og ekki hefur komið neitt fram sem sýnir fram á að eitthvað sé til í því.

Ég ætla að fara aðeins yfir það sem hefur komið fram líka í umræðunni fyrir áramót og núna. Ég vil nefna það að á árinu 2018 voru 394 félög með 50 ársverk eða fleiri samkvæmt ársreikningum. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu uppfylltu 66 af 394 félögum ekki ákvæði laganna um kynjahlutföll í stjórnum. Sambærilegar tölur liggja ekki fyrir vegna áranna 2014–2017 og 2019. Við í atvinnuveganefnd erum að skoða hvaða breytingar hafa orðið á þessum 66 félögum frá árinu 2018 og munu þær upplýsingar verða kynntar fyrir nefndinni þegar við tökum málið inn milli 2. og 3. umr. Í dag er framkvæmdin þannig að fyrirtækjaskrá skráir ekki stjórn ef tilkynning um stjórn uppfyllir ekki skilyrði laganna. Við skráningu á breytingu stjórnar hjá fyrirtækjaskrá er ekki óskað upplýsinga um hvaða aðferðum var beitt við stjórnarkjör, þ.e. hvort beitt var t.d. meirihlutakosningu, hlutfallskosningu eða margfeldiskosningu, samanber lög um hlutafélög.

Það kom fram í umræðunni gagnrýni á að bera saman íslenska löggjöf við norska þar sem í Noregi tæki hún til almenningshlutafélaga en með þessu frumvarpi er ekki verið að leggja mat á til hvaða félaga löggjöf um kynjahlutföll í stjórnum skuli taka. Sú löggjöf er þegar til staðar, eins og ég hef nefnt, og tók gildi 1. september 2013.

Það hefur líka verið nefnt hér hvernig eigi að meta fjárhagslegar afleiðingar. Dagsektir eiga að vera frá 10.000–100.000 kr. á dag og í ljósi þeirra talna sem liggja fyrir hefði verið upplýsandi að vita hvernig þetta myndi leggja sig, var spurt. Ég sá þetta í umræðunni fyrir jólin. Eins og kveðið er á um í frumvarpinu á að taka tillit til styrkleika fyrirtækja. Þessu vil ég svara þannig að við munum á milli 2. og 3. umr. skýra betur dagsektir, að þeim sé aðeins beitt á félög sem gera ekki úrbætur innan ákveðins frests. Það verður skýrt enn frekar að dagsektum verður ekki beitt strax heldur verður það skýrt enn frekar að félögin fá frest til þess.

Síðan var spurt um þetta lagaákvæði:

„Nú vanrækja stofnendur, stjórnendur, framkvæmdastjóri, endurskoðendur eða skoðunarmenn, skilanefndarmenn eða útibússtjóri erlends hlutafélags og aðrir skyldur sínar samkvæmt lögum þessum, félagssamþykktum eða ályktunum hluthafafundar og getur þá hlutafélagaskrá boðið þeim, að viðlagðri ákveðinni dagsekt eða vikusekt, að inna skylduverk af hendi. Bera má lögmæti úrskurðar undir dómstóla innan eins mánaðar frá birtingu hans.“

Spurning um þetta ákvæði kom hér fram og var vísað í hlutafélagalög. Því ber að svara með því að með vísan til meginreglu um skýrleika refsiheimilda er æskilegt að lögfest sé sérstakt ákvæði er taki til þess hvaða viðurlögum er heimilt að beita, uppfylli félög ekki skyldur um lögbundin kynjahlutföll í stjórn.

Svo var einnig nefnt að það væri engin tilraun gerð, hvorki í frumvarpinu né greinargerð eða nefndaráliti sem liggur fyrir, til að skilgreina hvað er fjárhagslegur styrkur. Það væri mjög óeðlilegt að ekki kæmi skýrt fram hvað við teldum flokkast undir það varðandi sektarákvæði, að það væri óljóst hvað fjárhagslegur styrkur væri. En þá vísa ég í 10. gr. laga um fyrirtækjaskrá og í lög nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda. Þetta eru sambærileg sjónarmið og þar koma fram.

Þetta sem ég skauta hér yfir er það sem ég dró fram og vildi fá skýr svör við og lét lögfræðinga á nefndasviði skoða fyrir mig. En við munum fara yfir þetta í nefndinni milli 2. og 3. umr. og skýra enn frekar í framhaldsnefndaráliti það sem hefur verið dregið hér fram og fáum eflaust einhverja gesti til okkar og vísum líka í mál Stefáns Más Stefánssonar prófessors, sem kom til nefndarinnar í desember. En það er ekkert sem hefur komið fram sem sýnir fram á að málið standist ekki skoðun varðandi stjórnarskrá og félagarétt og þessar sektir standist ekki lög. Við höfum fengið skoðun frá Skattinum og ábendingar sem við brugðumst við og við teljum að þetta mál sé komið á góðan stað og full ástæða til þess að klára það loksins eftir allan þann tíma sem það hefur verið hér í nefndum Alþingis, fyrstu tvö árin í efnahags- og viðskiptanefnd og í haust fór það til atvinnuveganefndar.

Mér finnst mjög mikilvægt að þingið heykist ekki á því að klára svona réttlætismál sem er þáttur í því að styrkja enn frekar konur á vinnumarkaði, konur í atvinnulífinu, að þær séu jafngildar til að taka að sér ábyrgðarstöður. Það er engin hætta á því að það finnist ekki hæfar konur til þess að gegna stjórnarformennsku í fyrirtækjum. Það er svo út í hött að gefa eitthvað slíkt í skyn, að þá sé verið að slá af kröfum ef uppfylla þarf þau skilyrði að annað kyn sé að lágmarki 40% í stjórnum stærri fyrirtækja. Við höfum verið að horfa til þess, sem betur fer, og það er ekki út af einhverju að konur eru farnir að láta miklu meira til sín taka í atvinnulífi landsins sem stjórnendur, stýra hér tveimur bönkum. Það er hvatning fyrir ungar konur að halda áfram. Við getum allt það sem okkur langar til. Við viljum ekki vera á þeim stað þar sem baráttan var fyrir einhverjum áratugum og það þótti sæta tíðindum að kona væri kosin í stjórn. Það var nefnt í umræðunni fyrir áramót af hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur að kona, loksins eftir 150 ár, var kosin í stjórn Bændasamtakanna. Ætli það hafi ekki verið til hæfar konur þar í gegnum öll þau ár? Hið sama má segja um ótal stjórnir fyrirtækja í landinu í dag. Það er bara svo mikill vannýttur auður í konum sem fyrirtæki ættu að nýta sér og ef skussarnir ætla að draga lappirnar þá verður bara að beita viðurlögum. Það er ekkert annað, þetta eru lög í landinu og það er eðlilegt að beita einhverjum viðurlögum í þeim efnum.

Í kvöld, sem mér finnst gaman að heyra, er verið að heiðra þrjár konur í atvinnulífinu á Hringbraut og ég hvet alla til þess að fylgjast með því. Ég segi bara: Áfram konur.