151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:57]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef átt ánægjulegt samstarf við hv. þingmann á vettvangi atvinnuveganefndar en verð að viðurkenna að eitt og annað í ræðu hv. þingmanns kemur mér eilítið spánskt fyrir sjónir. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hv. þingmann: Verður þingmál að jafnréttismáli fyrir það eitt að það sé kallað jafnréttismál af flutningsmönnum þess? Þarf ekki meira til? Þetta mál snýst um að leggja dagsektir á fyrirtæki, fela ríkisskattstjóra það verkefni. Umræðan hér í dag hefur verið málefnaleg í öllu tilliti. Hún hefur m.a. lotið að mögulegum árekstrum við stjórnarskrá. Hún hefur lotið að kæruheimildum og því sem lagt er til af hálfu meiri hluta nefndarinnar, þ.e. að engar slíkar skuli vera fyrir hendi heldur verði menn að leita réttar síns fyrir dómstólum með öllum þeim kostnaði og fyrirhöfn sem því fylgir. Fleira gæti ég talið.

Það var ýmislegt sem kom mér á óvart í ræðu hv. þingmanns en mest kom mér á óvart þegar hún sagði að ekkert hefði komið fram um að eitthvað væri til í því að fyrir hendi væru mögulegir árekstrar við eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Við óskuðum eftir því, fulltrúar Miðflokksins í hv. atvinnuveganefnd, að fengið yrði lögfræðilegt álit um það atriði. Það liggur fyrir í bréfi frá Stefáni Má Stefánssyni prófessor og hann kom á fund nefndarinnar. Þetta er mjög varfærnislega og kurteislega orðað og auðvitað verða menn að lesa svona texta í því samhengi en varnaðarorð hans verða ekki misskilin. Meiri vafi ríkir þegar um einkafyrirtæki er að ræða, segir hann. Hann segir enn fremur að leiða þurfi rök að því, t.d. í lögskýringargögnum, að vægari úrræði séu ekki tæk til að ná markmiðinu um kynjahlutföll í stjórnum. Hvernig getur hv. þingmaður haldið öðru eins fram, að það hafi ekkert komið fram um mögulegan árekstur við stjórnarskrá?