151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þó að það sé góð samvinna hjá okkur í atvinnuveganefnd þá höfum við okkar skoðanir á ólíkum málum og það er bara heilbrigt og sjálfsagt. En það sem hv. þingmaður kom inn á varðaði stjórnarskrána. Vissulega höfum við látið skoða það og látið sérfræðinga skoða það og enginn lögfræðingur, hvorki á nefndasviði né annars staðar, hefur talið að um brot á stjórnarskrá sé að ræða. Við munum auðvitað aldrei fara með neitt fram hér sem stenst ekki skoðun varðandi stjórnarskrána eða eignarréttarákvæði hennar.

Hv. þingmaður nefndi kæruheimildir og það eru kæruheimildir til viðkomandi ráðuneytis. Það er búið að kanna það og það er þangað sem kæruheimildirnar fara, þeim er vísað til viðkomandi ráðuneytis. Það liggur alveg fyrir. Það á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þeim ferli. En hv. þingmaður spyr: Er hægt að kalla hvaða mál sem er jafnréttismál? Því er ekki skotið til neinna dómstóla hvað megi kalla jafnréttismál. Ég held að ákall Félags kvenna í atvinnurekstri, þegar fulltrúar þeirra komu fyrir nefndina fyrir þrem árum, hafi verið uppsprettan að þessu máli í mínum huga sem formanns nefndarinnar og ég hef fylgt því fast eftir. Það hefur komið ákall frá konum víðs vegar í atvinnulífinu um að sett yrðu viðurlög (Forseti hringir.) við að brjóta lög um kynjahlutföll í stjórnum. Þess vegna segi ég að þetta sé jafnréttismál.