Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari tillögu hv. 11. þm. Reykv. n., Jóhanns Páls Jóhannssonar. Ég vil taka það skýrt fram að það var hv. þingmaður sem átti frumkvæði að þessari breytingartillögu við bandorminn. Ég fagna því mjög enda er ég mjög hlynnt því að við lækkum skatta, við lækkum álögur og gjöld og lækkum tolla til hagsbóta fyrir neytendur. Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson lét hafa eftir sér í viðtali í dag við DV að lífið snýst ekki bara um franskar kartöflur og ég get heils hugar tekið undir að það snýst ekki bara um það. En hér erum við að stíga ákveðið skref. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns þá er ekki lengur þörf á því að vernda framleiðslu á vöru sem ekki er lengur framleidd á Íslandi þannig að það þarf ekki að vernda neina hefðbundna innlenda landbúnaðarframleiðslu eins og hér hefur verið gert um árabil. Því fögnum við sérstaklega þessari tillögu um að lækka toll úr 76% í 46%. Eins og hv. þingmaður sagði er þetta kannski lítið skref fyrir neytendur akkúrat núna en vonandi er þetta eitt af mörgum skrefum sem áfram verða stigin til hagsbóta fyrir neytendur þannig að við sem erum aðdáendur franskra kartafla getum notið þeirra um ókomna tíð á hagstæðara verði en nú er.