Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[21:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Seinni spurningin sneri að athugasemdum Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra varðandi aðkomu að þeim stýrihópi sem fór yfir regluverkið árið 2017.

En mig langar, í ljósi ræðu hv. þingmanns og nefndarálitsins sem hér liggur fyrir, nefndarálits meiri hlutans, sem fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins skrifa undir, að spyrja hv. þingmann, af því að ég veitti því ekki athygli að þingmaðurinn kæmi í neinu að þeim sjónarmiðum í ræðu sinni hvaða atriði og athugasemdir það eru helstar sem tekið var tillit til gagnvart þeim sjónarmiðum sem annars vegar Blindrafélagið og hins vegar samtök leigubifreiðastjóra settu fram í ferlinu við vinnslu málsins. Til hvaða athugasemda þessara tveggja aðila var sérstaklega tekið tillit í vinnslu málsins?