Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[23:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hér er einmitt verið að taka utan um þá þjónustu sem við viljum sjá, þá góðu þjónustu sem hefur verið. Það er enginn að tala um að það séu gerðar breytingar vegna þess að þjónustan hafi verið svo slæm. Það er einmitt verið að tala um það að hér geti einmitt ekki Pétur og Páll komið og boðið upp á leigubifreiðaakstur nema þeir standist ákveðnar kröfur sem jafnvel eru ítarlegri heldur en hafa verið. Síðan nefndi þingmaðurinn hérna í ræðu sinni að það þyrfti bara að auka við fjölda leyfa. Það var gert. Það var brugðist við því núna eftir Covid. Það hefur ekki þjónað þeim tilgangi að fjölga í þessari þjónustu, þ.e. það dugði ekki til. Er þingmaðurinn sammála því að með þessum breytingum sé kannski fötluðum einstaklingum eða þeim sem hafa ekki fulla starfsgetu gefið svigrúm til að komast inn í stéttina? Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir því að leigubílstjóri geti bara stundað leigubílaakstur í fullri vinnu, 100% vinnu. Það kemur í veg fyrir það að þeir sem hafa t.d. skerta starfsgetu geti unnið við þessa vinnu. Eru þeir ekki fullfærir um að stunda hana?