153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Því miður óttast ég að það sé allt of mikið til í þessu hjá hv. þingmanni. Þetta er svo sem ekki fyrsta dæmið, við höfum séð þau nokkur. Hv. þingmaður nefndi þriðja orkupakkann sem er náttúrlega mjög stórt dæmi. Það sem mér finnst afar sérkennilegt við þetta mál, í ljósi þess hversu mikil áhersla er lögð á það og, eins og ég nefndi áðan, virðist vera að einhverjir telji að í þessu felist pólitískur hagur — samt treysta menn sér ekki til að mæta hérna. Hvar eru til að mynda Sjálfstæðismennirnir sem gætu reynt að halda því fram að þetta sé einhvers konar frelsismál? Hvar er Óli Björn Kárason? Hvar er til að mynda Berglind Ósk Guðmundsdóttir? Hvar er Bjarni Benediktsson? (EÁ: Diljá Mist.) Hvar er Diljá Mist Einarsdóttir? Og svo mætti lengi telja. Fólk sem svona almennt gefur sig út fyrir að tala fyrir frelsi en gerir svo hugsanlega eitthvað annað, það virðist ekki treysta sér til að verja þetta mál. Samt leggur það áherslu á að það klárist með góðu eða illu.

Ég spyr mig og spyr hv. þingmann: Er það vegna þess að þetta er gert með hvers konar óbragði í munni, menn vilji ekki láta skilja eitthvað eftir sig um að þeir hafi tjáð sig um mikilvægi þess að leggja niður heila starfsstétt á Íslandi? Eða hvað getur valdið? Ef tækifæri gefst til og tími fyrir hv. þingmann, af því að ég veit að hann þekkir vel til í Noregi, gæti hv. þingmaður velt aðeins vöngum yfir annars vegar viðbrögðum Íslendinga við þessu regluverki sem streymir hingað (Forseti hringir.) og hins vegar Norðmanna?

(Forseti (LínS): Forseti vill minna hv. þingmenn á að nota orðið háttvirtur þegar vísað er til annarra þingmanna.)