154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:31]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Árið 2019 var smánarlega lágur bankaskattur upp á 0,376% lækkaður í 0,145%, en ástæða lækkunarinnar var sögð vera að auðvelda bönkum að lækka vexti af útlánum samhliða vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands og auka útlán þeirra. Auk þess var talið að lækkun á bankaskatti myndi leiða til ódýrari lána til heimila og fyrirtækja sem þó er ljóst að hefur ekki skilað sér í minni vaxtamun og er hann svipaður nú og hann var árið 2018. Bankarnir hafa undanfarin misseri skilað miklum hagnaði í skjóli fákeppni og hárra stýrivaxta. Það er kominn tími til að þeir skili samfélaginu til baka þótt ekki sé nema hluta af þeim gróða. Því er lagt til að bankaskatturinn verði hækkaður um 0,838% sem myndi auka tekjur ríkissjóðs um rúma 30 milljarða kr. á næsta ári og þann tekjuauka yrði hægt að nýta til að draga úr hörðustu áhrifum verðbólgunnar á fátækt fólk og jafnframt draga úr skuldasöfnun ríkissjóðs. — Ég segi já.