154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég undirstrika það sem hv. þm. Guðbrandur Einarsson sagði áðan, að fyrir herlaust eyríki eins og okkur Íslendinga þá skiptir auðvitað öllu að alþjóðalög séu virt. Ef Úkraína tapar stríðinu þá munum við öll tapa, ekki síst lýðræðisríki, eyríki eins og Ísland. Þá verðum við að hlusta hvert þeirra ákall er og þeirra ákall í þessu stríði er að reyna að fá að bjarga sér sjálf með því m.a. að geta flutt út sínar vörur án þess að það séu tollar og tollmúrar reistir. Við í Viðreisn erum að leggja til að þessi framlenging verði til loka ársins 2024 til að sýna ótvíræðan stuðning við Úkraínu í verki. Það þýðir ekki fyrir ráðherra að koma hér trekk í trekk og segja að við styðjum við Úkraínu þegar við erum einmitt að fá ítrekað tækifæri til að gera það sem þau eru sjálf að kalla eftir. En það eru hins vegar íslenskir hagsmunir sem segja nei. Mér finnst það miður því að það eru risahagsmunir undir og þeir hagsmunir sem eru helstir undir eru lýðræði, frelsi og mannréttindi í allri álfunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)