132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fsp. 4.

[15:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Samkvæmt fréttum um helgina er undirbúningur að byggingu 250 þús. tonna álvers í Helguvík á fullri ferð. Gert er ráð fyrir að umhverfismatsferlinu ljúki eftir um eitt ár, að framkvæmdir við álverið geti hafist árið 2008 og fyrsti áfangi þess gangsettur árið 2010, segir í fréttatilkynningunni. Til að svo megi verða þarf reyndar að ráðast í svo og svo miklar virkjunarframkvæmdir áður en bygging álvers hefst. Að þessari aðgerðaáætlun stendur m.a. Fjárfestingarstofan sem er að stórum hluta í eigu iðnaðarráðuneytisins.

Nú er skemmst að minnast yfirlýsinga seðlabankastjóra um ógnarjafnvægi í efnahagsmálum vegna hinna miklu stóriðjuframkvæmda. Gríðarlega hátt gengi krónunnar og mikill viðskiptahalli, erfið staða annarra útflutningsgreina í sjávarútvegi, ferðaþjónustu, hátækniiðnaði, sem vegna stóriðjustefnunnar verður jafnvel að hrökklast úr landi er þó líka umræðunnar virði. Þessum atvinnugreinum hefur verið sagt að sýna biðlund meðan stóriðjuframkvæmdirnar sem nú standa yfir fyrir austan og á Grundartanga gangi yfir. Að þeim loknum verði gefið hlé þannig að efnahagslífið geti náð sér á ný og samkeppnisstaða útflutningsgreinanna aftur jafnast.

Þær fréttir sem hér birtast sýna að verið er á fullri ferð með fleiri álver, álver í Helguvík, og ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra hér: Hvar stendur þetta mál með álverið í Helguvík? Hvernig stendur málið með fleiri álver sem hæstv. álráðherra, iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, ber mest fyrir brjósti? Hvar stendur það? Er að hellast hér yfir okkur hvert álverið á fætur öðru? Ég velti því fyrir mér og spyr hæstv. ráðherra: Hvar stendur sú viljayfirlýsing og það sem hefur verið sagt við aðrar atvinnugreinar í landinu: Sýnið biðlund meðan þessi hrina gengur yfir og þá fáið þið næði? Hæstv. iðnaðarráðherra sagði hér áðan að þegar liði á þetta ár færi gengið að réttast. Mun það gerast ef þetta álæði heldur áfram sem hún virðist vera að boða? (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra.