132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:02]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að spyrja menntamálaráðherra út í 1. gr. þessa frumvarps. Ég hjó eftir því í máli ráðherrans hér áðan að hún taldi að það markaði tímamót að í þessu ákvæði er kveðið á um að sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil. Í öðrum lögum um hlutafélög í eigu ríkisins er sagt „nema með samþykki Alþingis“.

Nú vil ég spyrja ráðherrann hvort hún líti svo á að þar með hafi valdið verið tekið af Alþingi. Ef Alþingi vill nú selja hluta af Ríkisútvarpinu — eða bara almennt hvort það vald sé ekki lengur í höndum Alþingis. Mér þætti fróðlegt að fá svar við því. Ef ráðherrann er þeirrar skoðunar að valdið sé eftir sem áður hjá Alþingi, að breyta þessu hvenær sem því nú hentar, vil ég spyrja hvort það geti þá bara ekki gerst í gegnum 6. gr. fjárlaga eins og heimildargrein í fjárlögum eða þarf það að gerast með sérlögum hverju sinni? (Forseti hringir.) Það væri ágætt að fá svör við þessu.