132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[16:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta útvarpsráð sem getur bæði rekið og ráðið útvarpsstjóra er háð meirihlutavaldi hér á Alþingi, er háð ríkisstjórnarmeirihlutanum hverju sinni. Það var það sem ég hélt að menn vildu komast undan. Tillögur sem fram hafa komið frá stjórnarandstöðunni hafa gengið í þá átt.

Nei, það er verið að gera tvennt í senn. Það er verið að herða hin pólitísku meirihlutatök á Ríkisútvarpinu. Það er um leið verið að auka einvaldið, gera útvarpsstjóra einráðan í að ráða og reka starfsmenn og svipta þá réttindum sem þeir hafa haft. Ef ríkisstjórnin ímyndar sér að þetta mál muni renna í gegnum Alþingi þá er það mikill misskilningur. Það er rangt sem fram kom hjá hæstv. menntamálaráðherra, í upphafsorðum hennar, að það væri almannavilji á Íslandi að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið, því fer fjarri.

Er hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) kunnugt um það að nánast alltaf þegar stofnanir hafa verið gerðar að hlutafélögum á Íslandi (Forseti hringir.) hefur því verið lofað að þær yrðu ekki seldar, en alltaf hefur það verið svikið?

(Forseti (BÁ): Hv. þingmenn eru áminntir um að virða tímamörk í svörum og andsvörum.)