132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:16]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ríkisstjórnin og hæstv. menntamálaráðherra og ég mun þá væntanlega í framhaldinu stuðla að til þess að því markmiði sem hv. þingmaður lýsti og las upp úr ræðu útvarpsstjóra er akkúrat þetta frumvarp, að koma félaginu í eitthvert rekstrarumhverfi sem gengur þannig að hægt sé að reka þetta fyrirtæki skynsamlega. Ég held að við hv. þm. Mörður Árnason séum sammála um að nauðsynlegt sé að gera þarna skipulagsbreytingar. Yfirstjórn Ríkisútvarpsins er allt of víðfeðm og kostnaðarsöm og það er ástæða til þess að gera þær breytingar sem munu leiða til þess að reksturinn verði skynsamlegri og hagkvæmari.

Ég hygg að greinarhöfundurinn muni koma að máli við hv. menntamálanefnd og þar förum við yfir þessi mál. Ég er svo sem ekki með einhver konkret svör við því hvernig eigi að leysa úr þeim vanda sem hv. þingmaður er nú að reyna að klína á mig og stjórnarmeirihlutann. Gott og vel, hann getur gert það. En auðvitað munum við fara yfir þessi atriði. Þetta er ágætisábending og það verður tekið tillit til hennar.