132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:04]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst af vinnubrögðum í nefndinni. Ég hef vandað mig við að senda öll mál til umsagnar um leið og þau berast nefndinni, á næsta fundi eru öll mál send til umsagnar, ég man ekki eftir öðru. Þau eru send út til umsagnar og hver og einn einasti nefndarmaður getur bætt inn aðilum þannig að ég held að það sé nú í nokkuð góðum farvegi.

Hins vegar getur orðið dálítið erfitt að ræða mál saman því að maður veit ekki nákvæmlega hvaða mál eiga eftir að koma upp. Það getur verið erfitt að bíða með að ræða umsagnir og annað slíkt og segja: Heyrðu, við ætlum að bíða af því að það eru hugsanlega einhver mál á leiðinni. (ÖJ: Eins og Ríkisútvarpið.) Eins og Ríkisútvarpið, já. Ef það liggur fyrir að það verði lagt fram svipað mál en svo getur það nú brugðist líka.

Hv. þingmaður hefur í gegnum tíðina tamið sér að segja: Staðreyndin er. Hann segir þetta mjög oft og í hvert einasta skipti hugsa ég: Bíddu við, er allt annað ekki staðreynd? Eða verður eitthvað staðreynd bara af því að maður segir: „Staðreyndin er“? Það sem maður segir verður ekkert meiri staðreynd fyrir það. Það er jafnmikil eða jafnlítil staðreynd þó að einhver segi: „Staðreyndin er“ að opinber rekstur sé betri en einkarekstur. Það breytist ekki neitt þó að maður segi þetta. Alltaf þegar menn segja svona, „staðreyndin er“, eða það er alveg skýrt eða klárt, þá spyr ég alltaf: Er þá annað sem maðurinn segir ekki staðreynd? (Gripið fram í.)