132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:14]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má hv. þm. Össur Skarphéðinsson eiga að hann var nú heldur málefnalegri í sinni ræðu hér en eftirmaður hans í formannsstóli Samfylkingarinnar. Það ber að hrósa mönnum þegar þeir eiga það skilið.

Ég hef ekki séð ástæðu til að fara eitthvað frekar yfir mínar skoðanir á ríkisrekstri og fjölmiðlum. Ég held að ég hafi reifað þau sjónarmið ágætlega í ræðu minni áðan. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að mín sjónarmið í því efni hafa ekki breyst, þau eru alveg hin sömu. En hv. þingmaður spurði mig og varpaði þeirri spurningu líka til hæstv. menntamálaráðherra hvort það væri æskilegt við vinnslu þessa máls að leita umsagnar fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur starfað um langt skeið innan Evrópuráðsins og þekkir þar vel til. Þetta er ágæt ábending og við meðferð málsins í hv. menntamálanefnd munum við gefa gaum að því sem Evrópuráðið hefur sagt um þessi málefni. En ég vil benda hv. þingmanni á að það er Alþingi Íslendinga sem fer með löggjafarvaldið hér, ekki Evrópuráðið. Alþingi, ríkisstjórnin og þingmenn þurfa ekkert á neinu heilbrigðisvottorði frá Evrópuráðinu að halda áður en sett eru lög um Ríkisútvarpið. Þó að ábendingin hafi verið ágæt tel ég ekki nauðsynlegt að leita umsagnar frá þeirri ágætu skrifstofu. En ég tel að það komi vel til greina að kanna þau sjónarmið og þau stefnumið sem frá henni hafa stafað (Forseti hringir.) við meðferð þessa máls í nefndinni.