133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

tryggingagjald.

420. mál
[18:31]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég lýsi ánægju með þetta frumvarp svo langt sem það nær. Hér er verið að koma til móts við lífeyrissjóði á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, þá sjóði sem búa við sérstaklega þunga örorkubyrði.

Við erum fylgjandi sértækum ráðstöfunum í þessa veru en þá þurfa líka allir lífeyrissjóðir sem búa við þunga örorkubyrði að njóta þess. Og vil ég geta þess í því sambandi að önnur samtök en Alþýðusamband Íslands hafa óskað eftir viðræðum í þá veru. Hvað varðar aðra lífeyrissjóði þá nefni ég sérstaklega Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og ég vísa til annarra sjóða einnig.

Í því trausti að þessi mál verði tekin til skoðunar og endurskoðunar á komandi vikum samþykki ég og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar –græns framboðs þetta frumvarp.