135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna.

274. mál
[17:18]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér fjallar um mjög veigamikið mál og nær til sviða sem við höfum kannski ekki rætt í þaula enn þá en allir eru þó orðnir meðvitaðir um, þ.e. að hafsvæðin á hinum norðlægu slóðum, við Grænlandi, norður af Íslandi og í Norðurhöfum eru að breytast og á komandi árum munu verða auknar siglingar um þetta svæði hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Það er afar nauðsynlegt að við reynum að koma þessum málum í góðan samstarfsfarveg og efla viðbúnað sem snýr að öryggi jafnt á hafi sem landi. Við skulum ekki gleyma því að ef við t.d. lítum til næsta nágranna okkar í norðvestri, Grænlands, þá eru langmestar líkur á því að þangað verði sótt í auknum mæli af skemmtiferðaskipum á komandi árum vegna þess að þarna er e.t.v. að opnast veröld, a.m.k. að sumarlagi og eitthvað fram á haustið sem heimurinn hefur ekki átt greiðan aðgang að. Þess vegna munu siglingar inn á þetta svæði aukast, þ.e. siglingar farþegaskipa sem vilja sigla um norðurhöf og skoða það sem þar er áhugavert, sem er vissulega margt og mikið. Jafnframt vitum við það eftir veru okkar m.a. í Grænlandi á sl. sumri að Grænlendingar hafa um það talsverðar áætlanir að auka nýtingu á ýmiss konar jarðefnum í landi sínu, námugreftri, olíuvinnslu o.s.frv. Vissulega veldur þetta okkur nokkrum áhyggjum, einkanlega olíuvinnslan, og svo auðvitað siglingar annarra þjóða norðan við landið milli Íslands og Grænlands þar sem verið er að flytja olíu og fleira en slíkir flutningar munu væntanlega aukast í framtíðinni. Þegar menn tala um að þessi svæði verði íslaus meira og minna þá er það rétt svo langt sem það nær því á þessum svæðum munu samt sem áður ævinlega vera borgarísjakar. Þó svo hinn vetrarmyndaði hafís nái að bráðna yfir sumartímann þá er svæðið ekki íslaust í þeim skilningi að þar sé ekki borgarís sem brotnar reglulega af á hafinu og slíkir ísjakar geta verið ákaflega hættulegir skipum vegna þess að þeir veðrast í vindi og sjó og verða glærir. Þegar verið er að sigla og menn halda að hafið sé íslaust þá getur slíkt flykki sem sést mjög illa verið stórhættulegt skipum, miklu hættulegra en einhverjar ísrastir sem menn sjá og vita af og haga svo siglingunni í samræmi við það. Slíkir ísjakar sem menn taka illa eftir og koma jafnvel ekki skýrt fram á ratsjá, einkum ef það er smáalda, eru auðvitað mönnum huldir að því leyti til að skipstjórnarmenn taka ekki mið af þeim vegna þess að þeir sjá þá ekki. Þetta á einkum við ef það er þoka og eitthvað sem hamlar skyggni, en þótt menn álíti að hafið sé íslaust þá er það ekki svo. Þannig að jafnframt því að möguleikar á siglingum og nýtingu landsvæðisins á Austur-Grænlandi aukist, kannski aukin jarðefnavinnsla og auknir flutningar, og menn byggja á því að hafið verði að meira og minna mæli íslaust þá verða menn að minnast þess að þessi hætta er ævinlega til staðar.

Því miður er það svo að hvorki Grænlendingar, Íslendingar né Færeyingar eiga nú yfir að ráða neinum skip sem mundu ná að draga verulega stór skip sem þyrftu á aðstoð að halda, t.d. vegna vélarbilunar eða sem fengju á sig gat og misstu vélarafl ef eitthvað væri að veðri þó svo það megi draga þessi skip í logni. Ef þetta svæði á að vera öruggt þá þurfa umræddar þjóðir að fara að vinna að því hvaða tæki þurfa að vera hér til staða, a.m.k. það nærri að koma megi til aðstoðar við hin gríðarlega stóru olíuskip ef þau fara að sigla í vaxandi mæli sem allt bendir til.

Það fer ekkert á milli mála að Grænland, ónumin að stórum hluta, afar áhugavert land, náttúrufegurð mikil og margt að sjá fyrir þá sem hafa yndi af því að skoða stórbrotna náttúru lítt snortna eða ósnortna, verður mikill sigur fyrir ferðamanninn í framtíðinni. Það mun verða leitast við að selja þá vöru sem er að komast á slóðir sem menn hafa ekki séð áður en það liggur líka fyrir að þjóðirnar þurfa að hafa viðbúnað til að geta brugðist við slysum og hættum. Þó svo að skip séu sérhönnuð til siglinga í ís þá er það svo að ef mistök verða þá þola skip ekki að fara á 12 mílna ferð á stóran ísjaka að öllu jöfnu. Það er því að mörgu að hyggja og ég held að þessi tillaga sem hér er til umræðu, um aukna samvinnu, um öryggis- og björgunarmál Vestur-Norðurlandanna og á Norður-Atlantshafinu, einkum hér norðan við okkur, sé afar nauðsynleg og það sé eftir verulegum ávinningum að slægjast í því að takast á við þetta mál í tíma vegna þess að það er ekki nóg að rjúka upp til handa og fóta þegar slysið er orðið. Við þurfum að takast á við þetta tímanlega og þess vegna fagna ég því mjög hversu einróma sátt varð um tillöguna og einnig því ef Norðurlandaráð tekur þetta mál sérstaklega upp á sína arma.

Ég held einnig að menn eigi ekki að forðast það að ræða norðurhjarann, norðurhafsvæðið þegar fram í sækir þótt við þurfum auðvitað að fara að móta okkur stefnu í því sem hér um ræðir, að ræða við Norðmenn og Rússa um samskipti og sameiginlegar aðgerðir á þessum svæðum ef til þarf að koma. Það væri t.d. hörmulegt slys ef 300 þúsund tonna olíuskip færi á rek norður af Vestfjörðum og við hefðum engan búnað til að ráða við slíkt skip, það ræki upp á t.d. norðanverða Vestfirði svo ég nefni sem dæmi. Straumakerfið mundi haga því þannig að slíkur farmur mundi berast með öllum norðurströndum landsins inn Húnaflóa og austur með öllu Norðurlandi. Það væri mengunarslys sem við mundum þurfa að fást við í áratugi. Þess vegna álít ég, hæstv. forseti, að virkileg þörf sé á því að taka á í því máli sem við erum að ræða. Það er nauðsynlegt.