139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér fannst það heiðarlegt og gott. Hv. þingmaður benti á, sem er bara mjög eðlilegt því að í mörg horn er að líta í fjárlagafrumvarpinu og það var mjög heiðarlegt og rétt af hv. þingmanni að segja eins og er, að hann hefði ekki sett sig inn í þennan þátt málsins. Ég tek það að fullu gilt og það er til fyrirmyndar að menn segi hlutina eins og þeir eru.

Hins vegar er ég ánægður að heyra að hv. þingmaður vill að við vitum hvert er verið að fara með þessu. Málið snýst um mjög stóra upphæð, 3.000 milljónir. Þetta er hærri upphæð en allur sparnaðurinn hjá heilbrigðisstofnunum. Hér er um að ræða hluti eins og lyfjakostnað og lækningakostnað. Þarna eru lyf með S-merkingu sem þýðir að lyfin eru notuð sérstaklega á spítölum fyrir fólk með mjög alvarlega sjúkdóma. Þetta eru hjálpartæki, tannlækningar, þjálfun, brýn meðferð erlendis, sjúkraflutningar, sjúkrakostnaður vegna veikinda eða slysa erlendis, sjúkradagpeningar og heimahjúkrun.

Ég trúi því að hv. þingmaður sé algjörlega einlægur í að berjast fyrir því á vettvangi stjórnarmeirihlutans að upplýst verði hvernig menn ætla að ná þessu. Það vita allir hvert verkefnið er og eftir allan þennan tíma getur ekki verið að menn ætli í sama farið, menn brenndu sig nóg á þessu ári. Það getur ekki annað verið en að menn hafi hugsað um hvernig hægt er að ná þessum fjármunum. Við erum ekki að tala um einhverja smáaura. Við erum að tala um 3.000 milljónir og viðkvæman málaflokk, ekki fyrir okkur þingmenn heldur fólkið sem þarf á þjónustunni að halda (Forseti hringir.) og við verðum að upplýsa þetta fyrir allan almenning. Ég hvet hv. þingmann til dáða í þessu máli. Ég veit að hann mun sjá til þess að við fáum svör á þessum fáu dögum sem eftir eru.