139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski erfitt að velta fyrir sér hvernig viðbrögðin hefðu orðið ef önnur öðruvísi samansett ríkisstjórn hefði komið fram með fjárlagafrumvarp af þessum toga. Þó held ég að ég geti ímyndað mér að ýmsir þeir álitsgjafar og spekingar sem hafa komið fram í fjölmiðlum síðustu missirin hefðu talað með dálítið öðrum hætti. Ég ætla svo sem ekki að nefna nein nöfn í þeim efnum en maður getur vel séð fyrir sér að þeir hefðu nálgast þetta á mjög skrautlegan hátt og haft stór orð um þau ófaglegu vinnubrögð sem einkenna sérstaklega Ísland. Það er nú einhvern veginn svo með marga þessa spekinga að þeir láta jafnframt fylgja með einhverjar vammir og skammir um Ísland og íslenska umræðuhefð, eins og hún sé alveg sérstök.

Það sem ég var fyrst og fremst að vekja athygli á í þessari umræðu var að fjárlagafrumvarpið hefði verið ótrúlega munaðarlaust. Ég sé reyndar tvo þingmenn hér inni og hæstv. ráðherra sem lögðu það þó á sig að reyna að verja fjárlagafrumvarpið. Að öðru leyti var fjárlagafrumvarpið lagt fram og síðan byrjuðu játningarnar. Þær gengu bara út á það — og voru ekki bara í einhverjum prívatsamtölum heldur opinberum samtölum því að vitaskuld hefði ég ella ekki vitnað til þeirra — að menn sögðu frá því í stjórnarliðinu að þeir hefðu ekki haft hugmynd um hvað stóð í þessu fjárlagafrumvarpi. Þeir höfðu t.d. ekki hugmynd um að til stæði að skera niður í sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Hver á fætur öðrum sagði það á fundum þar sem sátu hundruð manna, þeir sögðu frá því að þeir hefðu verið alveg jafnblankir og stjórnarandstæðingar þegar kom að þessu máli.

Ég varð satt að segja furðu lostinn vegna þess að mín kynni og reynsla af slíkum undirbúningi hefur alltaf gengið út á að menn hafa fengið kynningu á fjárlagafrumvarpinu, forsendum þess, og síðan hafa þeir gengið rækilega eftir því að fá útskýringar á því til hvers fjárlagafrumvarpið leiði, á hverju niðurskurðurinn bitni og (Forseti hringir.) hvar stefnumörkunin eigi að vera. Stundum hafa orðið grimm slagsmál í mínum þingflokki út af því.