140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

staða kjarasamninga.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki taka undir það sem hv. þingmaður segir, að verkalýðshreyfingin viti ekkert í sinn haus. Niðurstaða hennar var mjög skynsamleg í endurskoðun á kjarasamningunum nú í janúar. Hún ákvað að framlengja kjarasamningana. (EKG: Þrátt fyrir ríkisstjórnina.) Hún ákvað að framlengja kjarasamningana (EKG: Þrátt fyrir ríkisstjórnina.) af því að hún telur skynsamlegra fyrir hagsmuni þjóðarinnar og hagsmuni umbjóðenda sinna og félaga í verkalýðshreyfingunni að gera það en að gera það ekki. (EKG: Þrátt fyrir …) Ég bið hv. þingmann að leggja það nú á sig að bera saman orð og efndir áður en hann kemur upp í ræðustól með alls konar dylgjur um ríkisstjórnina. (Gripið fram í.)

Ég hef sagt (Gripið fram í.) að SA fylgi stjórnarandstöðunni í öllum málum. Það er ekki eins komið með verkalýðshreyfinguna, sem betur fer, hún er miklu málefnalegri en SA í mörgum málum. (Gripið fram í: Enda er …) Hún hefur haft uppi stór orð um það af hverju við höfum ekki náð niðurstöðu (Forseti hringir.) í lífeyrissjóðamálunum en ég trúi ekki öðru en að hún hafi skilning á því að það taki meira en eitt ár að ná niðurstöðu í mál sem kostar inn í framtíðina 300 eða 350 milljarða kr. Það tekur lengri tíma, en við erum öll af vilja gerð að standa við það og það veit verkalýðshreyfingin. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir ræðumenn í ræðustóli Alþingis á að beina máli sínu til forseta þingsins.)