140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

440. mál
[12:34]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að þessi tillaga skuli vera komin fram. Það er mjög gott að fram sé lögð heildstæð tillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem fram kemur að stefnan sé sú að íslenskt samfélag byggi á virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenningu á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum fjölbreytileika og mannlegu eðli. Í þessari áætlun birtist annars vegar stefna og hins vegar framkvæmdaáætlun þar sem fram koma markmið og leiðir og gert er ráð fyrir því að hún verði endurskoðuð. Ég tel að slík vinnubrögð séu til mikillar fyrirmyndar.

Við erum sem betur fer að vinna talsvert að réttarbótum fatlaðs fólks. Við erum að vinna að því í samfélaginu að fatlað fólk sé ákveðinn hluti af þeirri flóru mannlífs sem er í landinu og það sem samfélagið á að gera er að ryðja burt hindrunum þannig að allt fólk á Íslandi geti notið bestu hugsanlegu lífsgæða.

Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni í hv. velferðarnefnd. Þar munum við senda málið út til umsagnar og fá til okkar gesti og fjalla um málið. Ég þykist vita að umsagnir verði ekki mjög neikvæðar vegna þess að ég veit að þetta mál hefur verið unnið í góðri sátt margra aðila. Það hjálpar okkur að sjálfsögðu til þess að flýta málinu, því að ég tel að um leið og við reynum að vinna málið vel, eigum við að reyna að flýta því eins og kostur er. Það skiptir máli að allir sjái að við erum með mjög ákveðna og metnaðarfulla stefnu og mjög ákveðna og markvissa framkvæmdaáætlun um það sem við ætlum að gera. Það skiptir miklu máli að í þessari framkvæmdaáætlun er mikil áhersla lögð á að fatlað fólk hafi eins og aðrir sjálfsákvörðunarrétt í sínum málum og stýri sínum málum á sem öflugastan hátt.

Mig langar sérstaklega til að geta þess að við erum að fara af stað með þróunarverkefni í ákveðnum sveitarfélögum um notendastýrða persónulega aðstoð þar sem grunnhugsunin er sú að hinn fatlaði velur sjálfur hvernig þjónustu við hann er háttað.

Ég endurtek ánægju mína með að tillagan skuli vera komin fram og ég hlakka til að takast á við umfjöllun um hana í velferðarnefnd.