143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi finnst mér afleitt að gefa í skyn að fræðimenn sem segja skoðun sína séu þar með í pólitík ef sú skoðun samrímist ekki skoðunum hæstv. ráðherra. Ef fræðimenn byggja álit sitt á sérþekkingu sinni á rannsóknum og upplýsingum þá eru þeir ekki í pólitík, þeir eru fagmenn. Ég hef orð á þessu í upphafi ræðu minnar vegna þess að mér finnst það einfaldlega vera meinsemd í íslensku samfélagi hvernig er oft talað um fræðimenn og þeir vændir um annarlega hagsmuni ef þeir segja upplýsta skoðun sína.

Í annan stað vil ég vara heitt og eindregið við þeirri tilhneigingu að seilast inn í verndarflokk rammaáætlunar með því að búa til alls kyns totur. Fyrir það fyrsta mætti náttúrlega halda því fram með góðum rökum að við ættum líka að seilast inn í nýtingarflokkinn. Þar eru nú margar tillögur líka sem mætti endurskoða. Hvað er í húfi? Ein virkjun þar uppi á hálendinu og svo önnur virkjun og svo þriðja virkjunin og einn daginn vöknum við upp við það að við erum búin að eyðileggja miðhálendi Íslands, óspjallað svæði sem felur í sér gríðarleg auðæfi og verðmæti.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja: Til hvers? Verðum við ekki að spyrja þeirrar spurningar? Hér hefur verið í gildi stefna um áratugaskeið sem gengur út á að virkja sem mest, virkja nánast allt sem hægt er að virkja og selja svo fyrir slikk. Það kallast að afhenda orkuna beinlínis stórum orkufrekum kaupanda. Ég segi: Ef við ætlum að halda þessari stefnu áfram, virkjum þá ekki neitt. Ég vil benda á að það er kappnóg af virkjunum í nýtingarflokki og það er umframorka í kerfinu. Ég segi því: Einbeitum okkur að því að reyna að koma þeirri orku í verð. (BirgJ: Heyr, heyr!) Virkjum lítið og (Forseti hringir.) reynum að fá mikið fyrir það (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að virkja mikið og fá lítið.