143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða.

42. mál
[19:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er mjög ánægjulegt að þessi tillaga sé komin til síðari umr. hér í þinginu og verður hún vonandi afgreidd með sameiginlegri niðurstöðu allra þingmanna í atkvæðagreiðslu.

Það er þannig að norðurslóðamálin eru eitt stærsta utanríkismálið sem Íslendingar standa frammi fyrir og því mikilvægt að við séum með það alveg á hreinu og skýra stefnu um hvert við ætlum og hvernig við sjáum Ísland fyrir okkur sem aðila í lykilstöðu á þessu stóra svæði. Það er ekki síður mikilvægt að við séum í góðu samstarfi við okkar góðu nágranna, Grænlendinga og Færeyinga, og að við í sameiningu reynum að vinna að stefnu, eins og lagt er til í þessari þingsályktunartillögu, þar sem löndin þrjú, sem eiga auðvitað ekki alla hagsmuni sameiginlega en þó margt sameiginlegt, geti staðið sterkari í hinum stóra heimi þegar umræðan um norðurslóðamálin á sér stað ef við erum búin að kortleggja sameiginlega hagsmuni okkar og reynum að vinna í sameiningu að þeim. Það er bakgrunnurinn í þessari ágætu tillögu.

Það verður í höndum ráðherranna, utanríkisráðherranna, að útfæra þetta og sýna fram á hvernig við ætlum nákvæmlega að gera það, en við í Vestnorræna ráðinu ákváðum það á ársfundinum okkar í Narsarsuaq nú í ágúst að undirbúa smá vinnuplagg fyrir ráðherrana. Okkur hafa borist frumdrög að vinnunni sem við síðan munum láta ráðherrana fá þegar Vestnorræna ráðið hefur fjallað um hana sem grunn að því hvernig við ætlum að stilla þessum málum upp.

Egill Þór Níelsson hefur sett saman þessa punkta fyrir okkur og þess ber að geta að Vestnorræna ráðið mun funda í næstu viku í Færeyjum þar sem við erum með þemaráðstefnu. Við vonumst til þess að Vestnorræna ráðið muni á þeim fundi fjalla lítillega um skýrsluna þannig að við getum afhent ráðherrunum hana eftir að ráðið hefur farið yfir atriðin.

Það er auðvitað margt og á mörgum sviðum sem við getum unnið saman, t.d. varðandi sjávarútveg sem er aðalatvinnugreinin í löndunum þremur. 88% þess sem flutt er út frá Grænlandi eru fiskur og fiskafurðir, sem er stór hluti og hlutfallið er enn hærra í Færeyjum á meðan stórþjóðir eins og Noregur og Rússland nálgast okkur ekki hvað þetta varðar, ekki hvað varðar mikilvægi fyrir efnahag landanna. Það er rétt að þjóðirnar þrjár sem eiga í rauninni svo margt undir fiskimiðunum, við eigum í rauninni þetta sameiginlega hafsvæði, geta unnið betur saman á þeim sviðum.

Þá er alveg ljóst að við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta hvað varðar verslun og við eigum að reyna að ná meiri árangri í samskiptum á þeim vettvangi. Við erum að koma nú í dag af fundi sem íslensk-grænlenska viðskiptaráðið hélt þar sem fjármálaráðherra Grænlands var í heimsókn og hélt erindi ásamt hæstv. fjármálaráðherra Íslands, Bjarna Benediktssyni, auk fulltrúa atvinnulífsins sem hafa reynslu af því að stunda viðskipti í Grænlandi. Það var mjög áhugavert að sitja þennan fund og heyra hversu mikilvægt menn telja aukið samstarfið, það að liðka til.

Mjög margir vísuðu sérstaklega til Höyvíkur-samningsins sem við höfum gert við Færeyjar, sem er í rauninni víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert, og menn hafa horft til þess að reyna að hefja viðræður í þá veru við Grænlendinga. Við erum ekki komin þangað en það er mjög gott að heyra að menn hafa hug á því, menn úr viðskiptalífinu, að ýta á eftir því að það verði gert.

Í nóvember sl. átti ég þess kost að sitja fund sem hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson átti með Alequ Hammond, leiðtoga landstjórnarinnar í Grænlandi, þar sem fjallað var um aukin samskipti Íslands og Grænlands. Það er alveg ljóst að þetta er framtíðin og Grænlendingar hafa mikinn áhuga á því að auka samskiptin við Ísland og líta á okkur sem sinn stærsta og besta nágranna. Við berum ábyrgð á því að koma til móts við þann vilja og sýna viljann í verki og ég er þess fullviss að það verður gert, enda er það eitt af þeim atriðum sem tilgreind eru í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, að norðurslóðamálin og vestnorræn samvinna séu mál sem ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á.

Eitt af þeim atriðum sem við getum unnið meira saman að og átt sameiginlegra hagsmuna að gæta í norðurslóðamálum eru björgunarmálin. Vestnorræna ráðið á sér auðvitað sögu hvað varðar björgunarmál á hafsvæðinu kringum norðurskautið. Það er alveg ljóst að við getum unnið meira saman og við Íslendingar þjónustað betur nágranna okkar, bæði á Grænlandi og Íslandi, vegna þess að það er styttra að fara með sjúklinga frá Grænlandi til Íslands en alla leið til Danmerkur.

Vestnorræna ráðið hélt þemaráðstefnu í janúarmánuði á síðasta ári um heilbrigðismálin. Það verður mjög áhugavert að hitta heilbrigðisráðherra landanna þriggja á mánudaginn en við eigum þess kost að eiga með þeim fund í Færeyjum þar sem þeir ætla að fjalla um hvernig þeir geta aukið samvinnu sína.

Síðan er ein af þeim hugmyndum sem birtast okkur í þessum drögum að á Grænlandi eru hafnarskilyrði með talsvert öðrum hætti en víðs vegar annars staðar í heiminum. Menn þar hafa reynslu af því að eiga við ís inni í höfnum og hægt er að nýta þá reynslu og þekkingu til þess að þjálfa þá sem sigla um heimsins höf í þeim málefnum. Þegar slóðin um norðurleiðina yfir til Kína opnast þurfa menn að koma sér upp þekkingu og þess vegna er mikilvægt að læra af þeim sem vita talsvert um þau mál.

Það verður spennandi að sjá hvernig olíu- og gasmálin þróast og ég tel ljóst að við eigum að vinna að þeim með nágrönnum okkar í Grænlandi og Færeyjum. Þá má auðvitað nefna orkumálin en bæði Ísland og Grænland eru mjög rík af náttúrulegum auðlindum og mikilvægt að við stöndum saman varðandi hvernig sú orka og hvernig þær auðlindir verða nýttar á norðurslóðum. Við getum fundið sameiginlega hagsmuni í þeim efnum.

Það kom líka fram á fundinum í dag að mikilvægt er að við horfum svolítið á ferðaþjónustuna og ferðaiðnaðinn vegna þess að hægt er að markaðssetja Ísland, Grænland og Færeyjar sem eitt svæði fyrir ferðamenn. Þeir sem eiga um langan veg að fara vilja oft kaupa sér pakkaferðir og heimsækja mörg lönd í einu og Ísland, Grænland og Færeyjar eru þrjú lönd sem eru nálægt hvert öðru en engu að síður mjög ólík að mörgu leyti hvað varðar náttúruna. Þess vegna gæti það verið spennandi kostur fyrir ferðamenn, sérstaklega frá Asíu sem hafa sýnt þessu svæði mikinn áhuga, að eiga þess kost að heimsækja allar þrjár þjóðirnar í einu, en það verður auðvitað ekki gert nema samgöngur séu greiðar. Við þurfum að passa upp á það og vinna betur saman í þeim efnum. Síðan er það menningin en við höfum og eigum nú þegar talsvert samstarf í menningarmálum en getum enn bætt í hvað það varðar.

Svo birtast okkur hér hugmyndir varðandi „free trade area“ í löndunum þremur. Það verður spennandi að sjá hvort það sé hugmynd sem fellur vel í kramið. Síðan er mikilvægt að nota þau tækifæri sem við höfum til þess að koma okkur í Vestnorræna ráðinu og samstarfinu milli ríkisstjórnanna þriggja á framfæri. Í október eða nóvember sl. var stór ráðstefna í Hörpunni, Arctic Circle, og Vestnorræna ráðið getur gert sig gildandi og kynnt starfsemi sína betur á slíkum vettvangi og ég vonast svo sannarlega til þess að við munum gera það á næstu ráðstefnu. En aðalpunkturinn er þessi: Það er vinna í gangi nú þegar. Við í Vestnorræna ráðinu munum leggja þetta til við ráðherranna og vonandi sjáum við fljótlega þessa sameiginlegu stefnu í vinnslu.