145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar ný ríkisstjórn tók við vorið 2013 settum við það í forgang að draga úr skerðingum sem bótaþegar hefðu þurft að sæta í tíð fyrri ríkisstjórnar. Við afnámum strax sumarið 2013 þá reglu að grunnlífeyrir væri skertur af lífeyrissjóðstekjum. Við hækkuðum líka frítekjumarkið vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega. Við framlengdum víxlverkunarsamkomulagið vegna bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða. Við lækkuðum frá 1. janúar 2014 skerðingarhlutfall tekjutryggingar niður í 38,35%. Við hækkuðum frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna. Þetta hefur skilað því að bætur eru í dag 7,4 milljörðum hærri á ári frá og með áramótum en ella hefði orðið. Því til viðbótar hafa bætur hækkað í samræmi við lög á hverju ári eftir því sem verðlag eða laun hafa hækkað meira (Gripið fram í: Nei.) og munu hækka núna um áramótin um 14 milljarða í samræmi við lög. Fjölgun bótaþega hefur líka verið talsverð á þessu tímabili og þess vegna er á þessu kjörtímabili annars vegar búið að fylgja lögum og gera aðrar breytingar til að fella niður fyrri skerðingar sem leiða til þess (Forseti hringir.) að á næsta ári verða bætur 26,8 milljörðum hærri en ella hefði verið. (Gripið fram í: Er hægt að samþykkja …?) Bætur eru að hækka um áramótin um 9,7%, um 14,2 milljarða, það er í samræmi við lög. Launaþróun (Forseti hringir.) er skilað til bótaþega … (Gripið fram í: … ánægðir með 170 þús. kr.?)