146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fjármálaráðið skilar af sér margra síðna umfjöllun um fjármálastefnuna og við eyddum drjúgum tíma í hana. Við fórum meira að segja til Svíþjóðar og heimsóttum fjármálaráð til þess að reyna að átta okkur á því og læra eitthvað um hvernig þeir unnu til þess að undirbyggja að þetta væri faglegt og óháð. Ég held að okkur hafi tekist að manna ráðið ágætlega, ég hef ekki efasemdir um það. Því miður eru margar virkilega alvarlegar athugasemdir hér undir. Það er eiginlega engin tilraun gerð til þess að taka mark á ráðleggingum fjármálaráðs. Mér hefði aldrei dottið í huga að svo yrði. Auðvitað fer maður að hugsa til hvers slíkt ráð sé ef ekki á að taka mark á því. Það er umræða sem við verðum að taka í fjárlaganefnd í ljósi þess hvernig þetta er. Og í ljósi þess hvernig málið er að þróast þá held ég að við verðum að gera það.

Auðvitað er röðin afar sérkennileg. Það verður að segjast eins og er. Eins og hv. þingmaður rakti er það hagspáin sem stýrir og síðan reynir ríkisstjórnin að stilla sér einhvern veginn inn í það, í staðinn fyrir að vera við stjórnvölinn með almennilega ríkisfjármálastefnu sem styður við peningastefnu Seðlabankans og styður við þá efnahagsstefnu sem hér þarf að ríkja. Það er ekki gert, eins og bent er á mjög ítarlega í þessu plaggi af hálfu fjármálaráðsins.