146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálastefnu til næstu fimm ára sem með nýjum lögum um opinber fjármál varða einn af þremur máttarstólpum opinberra fjármála ásamt fjármálaáætlun, sem verður kynnt á næstunni, og fjárlögum, sem að venju verða lögð fram að hausti.

Hv. þm. og formaður fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson, gerði fyrr í dag góða grein fyrir helstu atriðum stefnunnar og áliti meiri hluta fjárlaganefndar. Mig langar að árétta nokkur atriði.

Meiri hlutinn vekur í áliti sínu sérstaka athygli á nokkrum forsendum stefnunnar. Þar munar mestu að gert er ráð fyrir áframhaldandi stöðugum hagvexti út spátímabilið samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í nóvember sl. Í spánni er hagvöxtur áætlaður 4,4% á þessu ári og eftir það á bilinu 2,6–3% út spátímann.

Nær allir aðrir mælikvarðar gefa jákvæða mynd af efnahagshorfum. Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki, viðskiptakjör hafa batnað og verðbólga er innan viðmiða Seðlabanka Íslands. Kaupmáttur hefur einnig aukist meira en dæmi eru um síðastliðin tvö ár og á sama tíma hefur fjárfesting aukist eftir að hafa óneitanlega verið í algeru lágmarki á fyrstu árunum eftir bankahrunið. Vitað er að mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf er til staðar, bæði hjá hinu opinbera og hjá fyrirtækjum.

Áskorunin sem við blasir við þessar aðstæður er að ríkið forgangsraði fjárfestingum sínum þannig að ekki verði hætta á ofþenslu á sama tíma. Ofarlega á þessum forgangslista hljóta fjárfestingar í innviðum heilbrigðiskerfisins að lenda. Hér er ekki eingöngu átt við fyrirhugaða endurnýjun á húsakosti Landspítalans. Það má líka nefna framkvæmdir hins opinbera á stöðum sem minna hafa fundið fyrir uppgangi efnahagslífsins og jafnvel upplifað stöðnun eða samdrátt.

Þá hefur þörf fyrir fjárfestingu í samgöngukerfinu okkar verið mikið til umfjöllunar enda er slík fjárfesting nauðsynleg til að efla og bæta samkeppnishæfni einstakra byggða og landsins í heild.

Meiri hlutinn leggur til að unnin verði áætlun til a.m.k. fimm ára um fjárfestingu í innviðum samfélagsins. Slík fjárfesting er forsenda þess að hægt sé að standa undir kröfum um góð lífsskilyrði hér á landi, lífsskilyrði á borð við það sem við Íslendingar gerum kröfu um og standast það besta sem þekkist í heiminum.

Það er mikilvægt að mati meiri hlutans að rammi fjármálastefnunnar komi ekki í veg fyrir nauðsynlega og eðlilega fjárfestingu í innviðum samfélagsins.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Haraldar Benediktssonar og fleiri kom í ljós hjá ýmsum viðmælendum fjárlaganefndarinnar að þeir hefðu viljað meiri næmnigreiningu og fleiri sviðsmyndir. Og einnig að hugsanlega mætti hafa markmiðin, sem stefnan felur í sér sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, á tilteknu bili frekar en sem ákveðna punktastöðu. Með þessu mætti vissulega koma í veg fyrir of þrönga stefnumörkun en mikilvægt væri við slíka nálgun að gæta þess að sett bil yrði ekki það stórt að stefnan yrði of víð. Þannig væri markmið um traustan fjármálaramma sett í eitthvert uppnám.

Mig langar líka að nefna vaxtamálin. Við vinnu sína kynnti fjárlaganefnd sér sérstaklega samsetningu og þróun vaxtagjalda ríkissjóðs og fundaði með fulltrúum lífeyrissjóða þar sem rætt var um hugsanleg áhrif þeirra á vaxtamyndun hér á landi. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað síðustu ár. Þær náðu hámarki árið 2012 og námu þá 1.130 milljörðum kr. en hafa lækkað um 370 milljarða á fjórum árum. Mælt sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru skuldirnar 86% í árslok 2011 en voru komnar niður í 47,5% í lok síðasta árs. Ástæða lækkunarinnar liggja í bættri afkomu ríkissjóðs auk óreglulegra tekna sem hafa nýst til lækkunar skulda. Undir lok árs 2015 voru gerðir samningar við slitabú föllnu bankanna um greiðslu stöðugleikaframlaga í tengslum við undanþágur þeirra frá gjaldeyrishöftunum. Framlögin námu 385 milljörðum. Þar af vega þyngst 185 milljarðar í formi hlutafjár í Íslandsbanka sem er þar með alfarið í eigu ríkissjóðs.

Meiri hlutinn vekur sérstaklega athygli á að þrátt fyrir að skuldsetning ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu sé að lækka og sé lægri en í mörgum löndum OECD eru vaxtagjöldin mjög há í samanburði við önnur ríki og með því hæsta sem þekkist í hópi þessara ríkja. Helsta ástæðan er samsetning skuldanna. 82% af heildarskuldum ríkissjóðs eru innlendar. Eins og við þekkjum er vaxtastig á Íslandi mun hærra en víðast hvar erlendis. Það skýrir mun á vaxtakostnaði, eða þennan háa vaxtakostnað.

Það er ekki einfalt mál að breyta þessum veruleika þótt verkefnið sé svo sannarlega uppi á borði ríkisstjórnar. Við horfum fram á að vaxtagjöld ættu að lækka á næstu árum. Fyrst og fremst vegna niðurgreiðslu skulda, en bætt lánshæfismat ætti einnig að leiða til betri vaxtakjara. Bætt lánshæfismat sem á ekki síst að nást með efnahagslegu jafnvægi hér til lengri tíma, með sem mestum stöðugleika fyrir efnahag fyrirtækja, heimila og opinberra aðila. Markmiðið með fjármálastefnunni er einmitt að stuðla að slíku efnahagslegu jafnvægi.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að haldið verði áfram á þeirri braut að lækka skuldir ríkissjóðs jafnhliða því sem vaxtagjöldin verða að lækka verulega. Vaxtagjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru komin niður í 1,6% á því herrans ári 2007 en fóru hæst í 5,3% tveimur árum síðar. Í lok tímabils þessarar fjármálastefnu sem hér um ræðir, árið 2022, er gert ráð fyrir að vaxtagjöldin verði um 50 milljarðar kr. og þar með komin aftur niður í 1,6% af vergri landsframleiðslu.

Eðlilega leiðir umræða um mikilvægi lækkunar skulda ríkissjóðs til umræðu um einskiptisgreiðslur frá eignum ríkissjóðs. Þar má m.a. nefna arðgreiðslur og sölu á tilteknum hlutum ríkisins í viðskiptabönkunum. Miðað við bókfært verð nemur hlutur ríkissjóðs í stóru viðskiptabönkunum nú um 450 milljörðum kr. Eins og ítrekað hefur komið fram hér, og áður, á ríkið Íslandsbanka og Landsbanka nánast að fullu en um 13% hlutafjár í Arion banka.

Í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki kemur m.a. fram að litið hafi verið á eignarhald ríkisins á hlutum í íslenskum fjármálafyrirtækjum sem tímabundið fyrirkomulag þótt ástæða geti verið til að halda einhverjum þeirra áfram í eigu ríkisins. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að ítarleg umræða um framtíðarskipulag og eignarhald viðskiptabankanna fari fram á Alþingi. Vanda verður til undirbúnings á sölu á eignarhlutum ríkisins í viðskiptabönkunum og skapa þannig traust á söluferlinu.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir, m.a. hér í ræðustól Alþingis, að lögð verði öll áhersla á að vanda til verka í slíku söluferli þegar til kemur. Það verði einfaldlega látið taka þann tíma sem þarf til að uppfylla skilyrði um gagnsæi og vandvirk vinnubrögð. Rétt er í þessu samhengi að minna á að Landsbanki og Íslandsbanki greiða á þessu ári yfir 35 milljarða kr. í arð. Eiginfjárstaða þessara banka er sterk og það er svigrúm til að lækka það með frekari arðgreiðslum. Það er því hægt að ná fram ákveðnum tekjum af bönkunum án þess að selja þá. Það skapar okkur mikilvægt svigrúm til að bíða með sölu bankanna ef aðstæður til sölu eru ekki hagfelldar. Ég árétta mikilvægi þess að sala ríkisins á eignarhlut í bönkunum eigi sér stað að undangenginni ítarlegri umræðu og í opnu og gagnsæju söluferli. Þessi áhersla er áréttuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Annað atriði sem mig langar að drepa hér á í tengslum við þessa yfirferð lýtur að lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er nefnt að horfa þurfi til þróunar lýðfræðilegra þátta á næstu áratugum sem og áhrifa þeirrar þróunar á afkomu, fjárhagsstöðu og skuldbindingar opinberra aðila.

Einnig er áréttað að lífeyrisskuldbindingar hins opinbera muni íþyngja ríkisfjármálunum á komandi árum. Áætlað er að ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkis og sveitarfélaga vegna bakábyrgðar nemi samtals um 650 milljörðum kr. eða 27% af vergri landsframleiðslu í árslok 2016.

Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að stjórnvöld geri sem allra fyrst áætlun til lengri tíma um opinber fjármál, m.a. vegna spár um mannfjöldaþróun, og geri ráð fyrir svigrúmi til að mæta áhrifum af þeirri þróun í áætlunargerðinni.

Að lokum, virðulegi forseti. Í fjármálastefnunni felst að aðhaldið er mest árið 2018 og 2019 en mun minna seinni árin þar sem bæði er stefnt að lægri afgangi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu auk þess sem vaxtagjöldin lækka. Vaxtagjöldin eru áætluð 70 milljarðar í ár en í lok spátímabilsins rúmlega 50 milljarðar. Það eru því vísbendingar um að slakað verði á aðhaldi á seinni hluta tímabilsins enda er því spáð að þá hafi hægst á í hagvexti. Engu að síður telur meiri hlutinn að afkomumarkmiðin eins og þau eru sett fram í ályktuninni séu ágæt málamiðlun milli þeirra þátta sem takast þarf á við á næstu misserum. Vafasamt er að mati meiri hlutans að ganga lengra og gera frekari aðhaldskröfur.

Þegar litið er til þess hvernig fjármálastefna rímar við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem felur m.a. í sér stóraukin útgjöld til velferðar- og menntamála, er mikilvægt að árétta að vaxtagreiðslur af lánum ríkisins eru nú og hafa verið um nokkurt skeið þriðji stærsti kostnaðarliður ríkisins á eftir útgjöldum til heilbrigðis- og velferðarmála. Greiðsla þessara miklu vaxta er mikil blóðtaka fyrir samfélagið. Því mikla fjármagni er betur varið til annarra hluta. Þess vegna er lögð þung áhersla á þetta atriði. Það er fyrst og fremst trygg fjármálastjórn og niðurgreiðsla skulda sem gerir okkur kleift að auka útgjöld, m.a. til mikilvægra samfélagsmála, varanlega. Fjármálastefnan eins og hún birtist hér er mikilvæg forsenda þeirra vegferðar.