146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er um margt sammála því sem þar kom fram um þá stefnu sem hér er mörkuð, þá hægri sinnuðu aðhaldsstefnu sem hér er mörkuð. Hér hafa hins vegar um leið margir þingmenn kallað eftir uppbyggingu á ýmsum sviðum. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem kallar eftir uppbyggingu: Telur hann hugsanlega skynsamlegt að afgreiðslu þessa máls verði frestað þar til fjármálaáætlunin liggur fyrir? Ég fór yfir það áðan að það væri talsverður asi í að afgreiða fjármálastefnuna af því að þá væri engu hægt að hreyfa í fjármálaáætluninni nema með því að millifæra á milli liða en ekki mætti boða neina aukningu. Jafnvel þótt hún væri fjármögnuð með tekjum — ég hef reyndar bent á að þetta sé allt (Forseti hringir.) saman mannanna verk og að við séum enn með fjárstjórnarvaldið — spyr ég: Er ekki eðlilegt, í ljósi þess að við erum enn að innleiða þetta ferli, og virðist vera eins og þingmenn tali hér um að þeir séu að stefna að (Forseti hringir.) mikilli uppbyggingu um leið og þeir mæla þessari stefnu bót, að við bíðum bara eftir áætluninni og sjáum tölurnar svart á hvítu?