146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:36]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er alveg sammála því að við eigum að greiða niður skuldir. Ég held að enginn sé beinlínis á móti því. Síðan er það í raun og veru stefna ríkisstjórnar á hverjum tíma fyrir sig hversu hratt það er gert. Við getum verið ósammála um það.

Það að selja bankana er hins vegar ekki eina leiðin til að greiða niður skuldir eða afla tekna. Í því felst gagnrýnin, alla vega af minni hálfu. Þetta er svo einsleit leið. Að selja banka er ekki upphafið að lausninni eða endinn. Það eru til fleiri leiðir. Til dæmis væri hægt að greiða sanngjarnan arð af sameiginlegum þjóðarauðlindum okkar, t.d. fiskinum. Það er tekjustofn sem ríkisstjórnin hefur ekki nýtt. Síðasta ríkisstjórn sem hv. þingmaður var nú þingmaður í lækkaði þann tekjumöguleika töluvert.

Við sjáum svolitla einsleitni í þeim málflutningi sem er til staðar um það hvernig eigi að greiða niður skuldir. Það er vandamálið.