146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:22]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég er sammála mörgu af því sem fram kom í henni. Mig langar að forvitnast um hversu mikil þingleg meðferð þurfi að vera til þess að hægt sé að tryggja að hlutirnir séu vel gerðir. Ég upplifði það eins og fleiri fyrir jól að það var unnið allt of hratt og ekki gætt nægilega vel að atriðum sem skipta máli. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti hjálpað mér svolítið við að velta upp spurningunni um hvenær nóg sé nóg í þessu efni, hvernig við metum aðferðafræðina. Ég held að það sé algjörlega skýrt, alveg sama hvaða aðferðafræði yrði þróuð og hvernig henni yrði beitt, að þessi fjármálastefna myndi aldrei komast í gegnum hana, enda er hún aðferðafræðilega mjög vafasöm. Ég mun koma að því síðar í ræðu.

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér tékklistann? Hvaða atriði þyrftu að koma fram? Ég sé fyrir mér nokkur atriði varðandi fjármálastefnu, t.d. stefnu um þróun gjalda, skattstefnu, aðra tekjuöflun hins opinbera, grunngildi fjármálastofnunar mættu t.d. koma fram og jafnframt mættu fylgja sviðsmyndir.

Svo langar mig líka að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér fyrir sér að ástandið yrði ef þær forsendur sem gefnar eru um efnahagshorfur mundu standast samhliða hækkun afkomureglu í 1,6% ef taumhaldi á gengi krónunnar verður ekki náð án þess að vöxtur á vergri landsframleiðslu minnki um of af þeim sökum. Ég spyr í samhengi við það að verg landsframleiðsla mælir í raun ekki hagvöxt í hagkerfinu heldur fyrst og fremst breytingar á peningamagni í umferð.